Innlent

„Allt farið eftir 25 ára þrotlaust starf“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson

Bóndi á Bergsstöðum er miður sín vegna riðu sem greindist í sauðfé á bænum. Öllum 690 kindum bæjarins verður lógað.

Matvælastofnun greindi í dag frá því að riða hafi greinst á bænum Bergsstöðum í Vestur-Húnaþingi. Í síðustu viku létu bændur á bænum stofnunina vita af því að þar hefðu kindur veikst með einkenni sem líktust riðu. Tekin voru sýni og staðfest að um riðu er að ræða.

Matvælastofnun fer fram á að 690 kindum á bænum verði lógað.

Ari Guðmundsson bóndi á Bergsstöðum staðfestir í samtali við fréttastofu að kindunum verði lógað og að það verði gert sem allra fyrst til að ná því fyrir sauðburð. 

Hann segir að um allar kindur bæjarins sé að ræða og er miður sín yfir stöðunni. Hann segir erfitt að lýsa tilfinningunum.  „Eftir 25 ára þrotlaust starf er allt farið. Þú getur rétt ímyndað þér,“ segir Ari.

Riða aldrei áður greinst á svæðinu

Bærinn er í svokölluðu Miðfjarðarhólfi en þar hefur riða aldrei greinst og óljóst er hvernig hún barst þangað. Samkvæmt reglugerð um útrýmingu á riðuveiki er svæðið nú skilgreint sem sýkt svæði og er því óheimilt að flytja sauðfé til lífs milli hjarða í hólfinu og hvaðeina annað sem borið getur smitefni milli staða, svo sem hey, heyköggla, hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold. Enn fremur er óheimilt að hýsa aðkomufé, fóðra það eða brynna því með heimafé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×