Innlent

Alltaf skelfi­legt en verst á þessum árs­tíma

Máni Snær Þorláksson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Ari Guðmundsson, bóndi á Bergsstöðum í Húnaþingi vestra, segir það vera svakalegt högg að þurfa að lóga öllum 690 kindum á bænum sínum. Riða greindist í sauðfé á bænum og fór Matvælastofnun fram á að kindunum yrði lógað.

Rætt var við Ara í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann segir að í sjálfu sér eru engin orð sem geta lýst því hvernig það er að ganga í gegnum þetta. Það sé alltaf skelfilegt að þurfa að lóga öllu sauðfé vegna riðu en aldrei eins slæmt og á þessum árstíma, rétt fyrir sauðburð.

„Þetta er tuttugu og fimm ára starf sem er farið fyrir bí. Þannig þetta er helvíti svakalegt högg. Auðvitað er þetta mesta höggið fyrir okkur hér á bænum en líka fyrir bændurna í kring - við höfum verið á svokölluðu hreinu hólfi og þetta setur náttúrulega allt á hliðina hérna hjá okkur. Það er bara þannig.“

Ari segir að hann sé ekki í tilfinningalegu sambandi við allar kindurnar en að þetta sé þó mikið tilfinningalegt tjón:

„Kannski ekki alveg hverja eina og einustu en það þarf nú kannski ekki margar til, til þess að finna að þetta er svakalegt tilfinningalegt tjón.“

Hreinsunarstarf og uppbygging

Framundan er hreinsunarstarf og uppbygging á Bergsstöðum. Endurnýa þarf allt í öllum húsum og þrífa. Svo þarf að fara í jarðvegsskipti við fjárhús, koma skít úr húsunum, grafa hann og hey. 

„Það var farið yfir það allt í gær með okkur, hvernig á að standa að því.“

Því næst fer svo af stað samningaferli við ríki um afurðatjónsbætur. Ari segist ekki vita hvernig það ferli er í raun og veru en að einhver starfsmaður ráðuneytisins komi til með að standa fyrir þeim samningum.

„Svo náttúrulega verður að reyna að koma skepnunum sem fyrst til förgunar.“

Á góða að

Það verður mikil vinna að koma bænum aftur í gang en Ara skilst að þau geti mögulega fengið fé aftur haustið árið 2025. Hann segist hafa nóg fyrir stafni þangað til, hreinsunarstarfið mun taka tíma og uppbyggingin sömuleiðis.

„Ég náttúrulega er nokkuð handlaginn þó ég segi sjálfur frá, hef byggt þetta allt upp sjálfur meira og minna. En við eigum sem betur fer góða nágranna og góða fjölskyldu, þau koma nú sjálfsagt til með að hjálpa okkur eitthvað.“

Ari segir að dagarnir verði núna öðruvísi þar sem það verður hvorki sauðburður né smalamennska. Hann gæti þó reynt að skella sér með nágrönnunum í slíka vinnu. „Við eigum góða sveitunga og allir hafa sýnt okkur stuðning,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×