Fjallað var um útboðið í fréttum Stöðvar 2 en þessi 5,6 kílómetra langi kafli Reykjanesbrautar er sá síðasti sem eftir er að tvöfalda milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur.
Þegar tilboð voru opnuð í dag reyndist áætlaður verktakakostnaður vera rétt liðlega fimm milljarðar króna. Lægsta boð kom frá Íslenskum aðalverktökum, upp á 3.977 milljónir króna, sem er 79 prósent af áætluðum kostnaði. Suðurverk og Loftorka áttu næstlægsta boð, upp á 4,3 milljarða króna, sem var 85 prósent af kostnaðaráætlun. Hæsta boð, tilboðs Ístaks, var hins vegar rétt yfir áætlun.
En hvernig líst þeim hjá Vegagerðinni á þessi tilboð?
„Við erum bara mjög spennt fyrir þessu. Bæði erum við að fá dálítið af tilboðum og þau eru á mjög samkeppnishæfum verðum. Þannig að við erum að sjá tölur þarna sem eru mjög spennandi,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri.
Forstjóri Íslenskra aðalverktaka, Þóroddur Ottesen, er kátur að hafa verið lægstur.
„Líst vel á þetta. Við bjóðum í verk til að framkvæma þau. Kom okkur aðeins á óvart hvað kostnaðaráætlun var há. En við erum alveg mjög sáttir við okkar tilboð. Tilbúnir í verkið,“ segir forstjóri ÍAV.
Verði lægsta boði tekið sparar Vegagerðin sér 1.056 milljónir króna miðað við kostnaðaráætlun.
„Í þessu árferði þar sem hver króna telur þá er þetta náttúrlega frábært, - frábært að geta farið að skoða þetta,“ segir Bergþóra og hefur þann fyrirvara að eftir sé að yfirfara tilboðin.
„Þetta er með stærri verkum sem Vegagerðin er að bjóða út núna. Svo bíðum við bara spenntir eftir Arnarnesveginum,“ segir Þóroddur Ottesen.
-Var hart barist um þetta verk?
„Já, mér sýnist tölurnar alveg sýna það. Allavega vorum við tveir þarna ekkert mjög langt frá hvor öðrum og keppinautur okkar þarna rétt aðeins fyrir ofan,“ svarar Þóroddur.
-Eru menn svo hungraðir í verkefnin?
„Við vorum að klára tvö stór verkefni fyrir Vegagerðina og við erum tilbúnir í það næsta,“ segir forstjórinn en verkin sem ÍAV er að ljúka eru fyrsti áfangi Dynjandisheiðar og breikkun Suðurlandsvegar í Ölfusi.
Svo skemmtilega vill til að það voru einmitt Íslenskir aðalverktakar sem upphaflega byrjuðu að steypa Reykjanesbraut fyrir rúmum sextíu árum.
„Þannig að við getum sagt að við séum bara að ljúka verkinu núna, - klára þessa tvöföldun,“ segir forstjóri Íslenskra aðalverktaka.
Framkvæmdir fara á fullt í sumar og áætlað að þeim ljúki eftir rúm þrjú ár.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Þótt verklok séu áætluð 30. júní 2026 sagði Jón Heiðar Gestsson, verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni, að reynt yrði að opna megnið af Reykjanesbrautinni árið 2025. Síðasti kaflinn, hálfur kílómetri í kringum Straumsvík, yrði svo opnaður sumarið 2026, eins og fram í þessari frétt í síðasta mánuði:
Hér má sjá myndband Vegagerðarinnar af breikkun Reykjanesbrautar: