Síðustu daga hefur Veðurstofan unnið að mælingum á snjóflóðunum sem féllu í Neskaupstað í síðustu viku og hafist handa að vinna úr gögnum. Búið er að ljósmynda upptöku- og úthlaupssvæði þeirra af jörðu og úr lofti en starfsmenn hafa fengið aðstoð björgunarsveita og heimamanna við mælingar.
Fyrsta snjóflóðið sem féll á bæinn mánudagsmorguninn 27. mars var þurrt flekaflóð líkt og næstu flóð sama dag. Féllu þau í kjölfar skammvinnri en ákafri snjókomu um nóttina. Náðu fyrstu flóðin langt og lentu á húsum undir Nesgili og stöðvuðu svo skammt ofan byggðar neðan Bakkagils.
Miðvikudaginn 29. mars kom ný lægð að landinu með mikilli ofankomu, snjókomu í fyrstu, en svo tók að hlýna smátt og smátt og endaði úrkoman í rigningu alveg upp í fjallahæð á föstudag og laugardag. Þá féllu mörg stór flekaflóð við bæinn, meðal annars á snjóflóðakeilur ofan varnargarða. Þau flóð voru blautari og efnismeiri en náðu engu að síður langt og féllu á miklum hraða.
Þegar snjóflóðin úr Nesgili og Bakkagili voru skoðuð nánar, eftir að skafrenningssnjór sem þakti snjóflóðstungurnar hafði bráðnað, kom í ljós að þau höfðu eyðilagt trjágróður á stórum svæðum og borið fram grjót og gróðurtorfur. Stór grenitré rifnuðu upp með rótum eða kubbuðust í sundur neðarlega. Birki og víðirunnar virtust aflagast og leggjast undan flóðinu án þess að brotna.
„Iðufaldur er talinn hafa borist áfram á miklum hraða fremst í snjóflóðunum á Flateyri í janúar 2020. Iðufaldurinn barst yfir leiðigarða undir Skollahvilft og Innra-Bæjargili og snjóflóðið úr Innra-Bæjargili olli að mörgu leyti svipuðu tjóni á húsi og bílum og varð í Neskaupstað á mánudaginn. Leiðigarðurinn bægði hins vegar þétta kjarnanum frá og kom þar með í veg fyrir mun meiratjón en varð,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Fyrstu vettvangskannanir benda til þess að keilur ofan varnargarða í Neskaupstað sem og að brattir þvergarðar hafi virkað vel til þess að draga úr krafti iðufaldursins.
Þegar flekasnjóflóð fara af stað myndast svokölluð „brotstál“ í upptakasvæðunum. Brotstálin eftir snjóflóðin sem fóru af stað á mánudaginn 27. mars eru víða illgreinanleg vegna þess að mikið fennti dagana á eftir. En brotstálin eftir snjóflóðin sem féllu seinni hluta vikunnar eru skýr.
„Í Tröllagiljum og Drangagili í Neskaupstað eru svokölluð „upptakastoðvirki“ ofarlega í giljunum. Þau eru hönnuð til þess að draga úr stærð þeirra snjóflóða sem geta farið af stað. Þau gegna líka því hlutverki að fækka snjóflóðum, því flóðin eiga oft upptök efst undir klettum, þar sem stoðvirkin eru. Á þessum svæðum má ætla að snjóflóðin hafi orðið minni en ella vegna þess að stoðvirkin komu í veg fyrir að snjóflóð færu af stað á stórum svæðum,“ segir á vef Veðurstofunnar.