Þetta kemur fram í skriflegu svari skrifstofu Forseta Íslands við fyrirspurn fréttastofu.
Krýningarathöfnin fer fram þann 6. maí næstkomandi. Verða þar þjóðhöfðingjar heimsins viðstaddir, þar á meðal forsetahjónin. Þar sem boðið var einungis sent á þjóðhöfðingja verða engir ráðherrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur viðstaddir.
Guðni og Eliza ferðast til London þann 5. maí og fara síðan heim daginn eftir athöfnina, þann 7. maí. Ekki er fyrirhuguð þátttaka þeirra í opinberum viðburðum ytra, öðrum en krýningarathöfninni í Westminster Abbey og móttöku í tengslum við hana í Buckinghamhöll.
Engir starfsmenn embættisins munu fylgja þeim út, en skrifstofa forseta á í góðu samstarfi við sendiráð Íslands í London sem aðstoðar forsetahjónin eftir þörfum ytra.
Greint var frá því í dönskum fjölmiðlum í dag að Margrét Danadrottning yrði ekki viðstödd athöfnina þar sem hún er enn að jafna sig eftir aðgerð á baki sem hún undirgekkst í febrúar.