Íslenski boltinn

Brynjar númer 69 til að heiðra lítinn frænda og heil­brigðis­kerfið

Sindri Sverrisson skrifar
Brynjar Gauti Guðjónsson kom inn í vörnina hjá Fram á miðju tímabili í fyrra, frá Stjörnunni, og var þá í treyju númer 2.
Brynjar Gauti Guðjónsson kom inn í vörnina hjá Fram á miðju tímabili í fyrra, frá Stjörnunni, og var þá í treyju númer 2. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Brynjar Gauti Guðjónsson, leikmaður Fram í Bestu deildinni í fótbolta, mætti til leiks á nýrri leiktíð á mánudag með nýtt númer á bakinu, 69. Það gerir hann fyrir frænda sinn sem fór í hjartastopp í 69 mínútur fyrr á þessu ári.

Brynjar Gauti sagði frá þessu í viðtali við Fótbolta.net eftir að hafa spilað með nýja númerið á bakinu í 2-2 jafntefli gegn FH í Úlfarsárdalnum, í fyrstu umferð Bestu deildarinnar.

„Sonur systur minnar veiktist illa í byrjun árs. Hann fékk sýkingu og lenti inn á gjörgæslu. Það endaði þannig að hann fór í hjartastopp og var í hjartastoppi í 69 mínútur,“ sagði Brynjar við Fótbolta.net þegar hann útskýrði númeravalið.

Segir læknana hafa gert kraftaverk

Hann kvaðst hafa viljað heiðra frænda sinn og vekja athygli á því hve heppnir Íslendingar væru með heilbrigðiskerfið.

„Læknarnir á Landsspítalanum gerðu kraftaverk og náðu að koma honum til lífs aftur. Hann var settur í hjarta- og lungnavél, og var síðan flogið til Svíþjóðar á barnaspítala Karólínska sjúkrahússins.

Hann var á gjörgæslu en er núna búinn að ná ótrúlegum bata. Hann er farinn að vera heima hjá sér og er ótrúlega kröftugur,“ sagði Brynjar.

Brynjar Gauti kom til Fram frá Stjörnunni á miðju tímabili í fyrra og þótti hafa góð áhrif á Framliðið, þá í treyju númer 2 líkt og þegar hann var í Stjörnunni. Framarar enduðu í 9. sæti og er spáð svipuðu gengi í sumar. Næsti leikur þeirra er gegn HK í Kórnum á sunnudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×