Íslenski boltinn

„Fannst þeir fara miklu oftar upp bak­við Kenni­e“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kennie Chopart tekur virkan þátt í sóknarleik KR-liðsins.
Kennie Chopart tekur virkan þátt í sóknarleik KR-liðsins. Vísir/Hulda Margrét

Lárus Orri Sigurðsson leikgreindi viðureign KA og KR í 1. umferð Bestu deildar karla í Stúkunni að leik loknum. Farið var yfir sóknarleik heimamanna í leiknum en þær fóru flestar upp vinstri vænginn, í svæðið sem Kennie Chopart – hægri bakvörður KR – hafði skilið eftir á bakvið sig.

„Var að velta því fyrir mér meðan ég horfði á leikinn, fannst þeir fara miklu oftar upp bakvið Kennie. Flestar sóknirnar koma þarna megin og flest færin, eins og þetta algjöra dauðafæri hjá Pætur [Joensson Petersen],“ sagði Lárus Orri á meðan klippa af líklega besta færi KA í leiknum var spiluð.

„Þarna enn og aftur eru þeir komnir upp á bakvið Kennie. Ætla að gefa þeim það að þetta hafi verið planað en svo er náttúrulega Hallgrímur [Mar Steingrímsson] að spila þarna líka og hann er duglegur að finna svæðin.“

„Þeir fóru mikið þarna upp og þetta voru færin sem þeir fengu, þau komu öll þarna í gegn. KR spilar þannig að bæði Kennie og Kristinn [Jónsson] eru mjög ofarlega. Þeir eiga að gera það. Ekki bara hægt að horfa á þá og segja að þeir séu að gera mistök. Verður að horfa á restina af liðinu og hjálparvörnina.“

Klippa: Fannst þeir fara miklu oftar upp bakvið Kennie

„Þarna sjáum við Kristinn fyrir framan og þarna fyrir aftan er Theódór Elmar [Bjarnason]. Eru búnir að skipta um stöður. Bakvörðurinn er kominn upp og kantmaðurinn niður. Þegar Theódór Elmar er að spila er oft á tíðum minni möguleiki á að sækja upp hjá Kristni því hann er mjög duglegur að koma til baka og hjálpa,“ sagði Lárus Orri að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×