Frá þessu segir í tilkynningu frá norska utanríkisráðuneytinu. Þar segir að starfsmennirnir séu í raun starfsmenn rússneskrar leyniþjónustu.
Starfsmennirnir þurfa að yfirgefa Noreg sem fyrst og segir í tilkynningunni að norsk yfirvöld muni ekki veita starfsmönnum rússneskra yfirvalda sem starfa við leyniþjónustu vegabréfsáritun.
Ákvörðun norskra stjórnvalda er sögð byggja á þeirri nýju öryggispólitísku stöðu sem uppi sé sem hafi leitt til aukinnar ógnar frá Rússlandi.
Utanríkisráðherrann Anniken Huitfeldt segir að Norðmenn muni ekki heimila veru rússneskra leyniþjónustumanna í Noregi sem séu þar í skjóli stöðu sem erindrekar, að því er segir í frétt NRK.
Norsk stjórnvöld eru sögð hafa lengi fylgst með umræddum fimmtán sendiráðsstarfsmönnum. Norðmenn vísuðu þremur rússneskum leyniþjónustumönnum úr landi í apríl á síðasta ári, nokkrum vikum eftir upphaf innrásar Rússa í Úkraínu.