Innlent

Samfélagið slegið vegna riðutilfella og bændur uggandi

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir mikilvægt að huga meðal annars að andlegri heilsu bændanna. 
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir mikilvægt að huga meðal annars að andlegri heilsu bændanna.  Aðsend

Riðutilfelli sem hafa nú greinst á tveimur bæjum í Miðfirði eru mikið áfall fyrir samfélagið að sögn sveitarstjóra Húnaþings vestra. Boðað hefur verið til íbúafundar í næstu viku til að fara yfir stöðuna en margir eru uggandi um framhaldið. Stórauka þurfi fé í riðuvarnir og rannsóknir að mati sveitarstjóra.

Tvö tilfelli riðu hafa nú greinst í Miðfirði en síðdegis í gær greindi Matvælastofnun frá því að riða hafi greinst á bænum Syðri-Urriðaá, nálægt Bergstöðum þar sem riða kom upp í síðustu viku, en aflífa þarf um 720 kindur. Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir þetta áfall fyrir samfélagið.

„Það eru auðvitað bara allir mjög slegnir og hugur okkar er auðvitað fyrst og síðast hjá þessum bændum sem að verða fyrir þessum hörmungum. Það verður líka að segjast að það eru bara mjög margir aðrir bændur uggandi umframhaldið,“ segir Unnur en verið er að kanna hvort riða hafi dreift sér víðar.

Ekki er unnt að brenna féð frá Syðri-Urriðaá vegna bilunar í sorpeyðingarstöðinni Kölku á Suðurnesjum. Takmarkaðir valmöguleikar eru í boði en því verði að ljúka á næstu dögum þar sem það styttist í sauðburð undir lok mánaðar.

„Við erum bara í samtali núna við umhverfisstofnun varðandi mögulegar lausnir á því,“ segir Unnur en það gæti komið til greina að urða hræin. „Það er ein hugmyndin sem er uppi en það eru margar hugmyndir á borðinu og það samtal er bara í gangi.“

Andlegt áfall og fjárhagslegt tjón

Á þriðjudag hefur verið boðað til umræðufundar fyrir íbúa til að fara yfir stöðuna þar sem fulltrúar frá Bændasamtökunum og MAST verða með erindi.

„Þar mun líka hún Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð vera með erindi en hún hefur staðið fyrir viðamiklum riðurannsóknum undanfarin misseri. Og svo munum við líka fá erindi frá Jóhönnu Bergsdóttur sálfræðingi, því það er auðvitað mjög mikilvægt að huga síðan að andlegri heilsu þeirra sem að verða fyrir þessum hörmungum,“ segir Unnur.

Ljóst sé að atburðum sem þessi fylgi gríðarleg áhrif á íbúana og samfélagið í heild.

„Þetta eru auðvitað tvö stór bú þannig það er ekki bara þetta andlega tjón og það áfall sem við verðum fyrir heldur líka fjárhagslegt tjón. Þannig þetta getur haft mun víðtækari áhrif heldur en eru komin fram,“ segir hún.

Í framtíðinni þurfi betur að huga að sauðfjárveikivörnum, þar sem girðingar skipta einna helst miklu máli.

„Því miður hefur fjármagn sem hefur runnið til þeirra undanfarin ár og áratugi verið af allt of skornum skammti og það þarf að bæta þar verulega í ef við ætlum að stemma stigu við þessu á komandi árum,“ segir Unnur.

„Svo er það auðvitað partur af þessum forvörnum að setja stóraukið fé í rannsóknir á riðunni og þeim verndandi arfgerðum sem að hafa verið að koma fram til þess að það sé hægt með markvissum hætti hægt að rækta sjúkdóminn úr stofninum á komandi árum. Það er stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir,“ segir hún enn fremur.


Tengdar fréttir

Skera niður allt fé á öðrum bæ í Mið­firði

Við rannsókn á sýnum úr kindum sem keyptar voru af bænum Bergstöðum í Miðfirði, þar sem riða greindist á dögunum, greindist ein kind á bænum Syðri-Urriðaá með riðu. Allt fé á bænum verður skorið niður.

Líkleg riða á öðru stóru býli

Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að riða hafi greinst á öðru býli í Miðfjarðarhólfi. Smitið hefur ekki verið staðfest endanlega en yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun segir unnið út frá því að um riðu sé að ræða.

Uggandi vegna mögulegrar dreifingar riðunnar

Búið er að aflífa um sjö hundruð kindur á bænum Bergsstöðum í Vestur-Húnaþingi vegna riðu sem kom þar upp. Tuttugu kindur úr hjörðinni höfðu verið fluttar á nokkra bæi í nágrenninu og yfirdýralæknir segir í forgangi að greina sýni úr þeim. Reynist þær sýktar þarf að aflífa fé á þeim bæjum.

Alltaf skelfi­legt en verst á þessum árs­tíma

Ari Guðmundsson, bóndi á Bergsstöðum í Húnaþingi vestra, segir það vera svakalegt högg að þurfa að lóga öllum 690 kindum á bænum sínum. Riða greindist í sauðfé á bænum og fór Matvælastofnun fram á að kindunum yrði lógað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×