Fótbolti

Sveindís með tvö mörk þegar Wolfsburg fór í úrslit

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sveindís Jane var frábær hjá Wolfsburg í dag.
Sveindís Jane var frábær hjá Wolfsburg í dag. Vísir/Getty

Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg eru komnar í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar eftir stórsigur á Íslendingaliði Bayern Munchen í dag.

Wolfsburg og Bayern Munchen há nú harða baráttu um þýska meistaratitilinn en liðin eru í tveimur efstu sætum deildakeppninnar þar sem Bayern er efst með eins stigs forystu.

Þau mættust í undanúrslitum bikarsins í dag í Munchen og var búist við spennandi leik. Sú varð hins vegar ekki raunin því Wolfsborg hreinlega valtaði yfir Bayern.

Sveindís Jane skoraði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu og Maria Grohs skoraði svo sjálfsmark skömmu fyrir hálfleik og staðan 2-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Wolfsburg gerði síðan út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks. Sveindís Jane skoraði annað mark á 47. mínútu og Jule Brand skoraði fjórða mark liðsins níu mínútum síðar. Dominique Janssen setti síðan punktinn yfir i-ið á 60. mínútu þegar hún kom Bayern í 5-0 sem urðu lokatölur leiksins. Wolfsburg er því komið í úrslitaleik bikarkeppninnar en Bayern er úr leik.

Sveindís Jane lék allan leikinn fyrir Wolfsburg í dag sem og Glódís Perla Viggósdóttir í vörn Bayern Munchen. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn á í liði Bayern á 77. mínútu en Cecilía Rán Rúnarsdóttir var utan hóps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×