Erlent

Óljóst hver stjórnar Súdan eftir átök dagsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Umfangsmiklir bardagar hafa átt sér stað í Kartúm og víðar í Súdan í morgun.
Umfangsmiklir bardagar hafa átt sér stað í Kartúm og víðar í Súdan í morgun. AP/Marwan Ali

Hörð átök brutust út milli súdanska hersins og valdamikils vopnahóps í Kartúm, höfuðborg Súdan, í morgun, hvar íbúar við sprengingar og skothríð. Hermenn hafa barist við meðlimir hóps sem kallast RSF, en óljóst er hver fer með stjórn ríkisins að svo stöddu.

Undanfarnar vikur hefur mikil spenna myndast milli hersins, sem leiddur er af herforingjanum Abdel Fattah al-Burhan, og RSF, sem leiddur er af Mohamed Hamdan Dagalo. Herforingjarnir tveir tóku höndum saman í október 2021 og tóku völdin í Súdan.

Áðurnefnda spennu má að miklu leyti rekja til deilna um hvernig ætti að innleiða RSF inn í súdanska herinn. 

Upp úr sauð í morgun en forsvarsmenn fylkinganna saka hvorn annan um að bera ábyrgð á átökunum. Sameinuðu þjóðirnar segja minnst 27 látna og minnst fjögur hundruð særða.

Al-Burhan og Dagalo hafa deilt á undanförnum mánuðum og samkvæmt New York Times hafa þeir fjölgað hermönnum sínum í Kartúm og annarsstaðar í ríkinu. Ráðamenn í Bandaríkjunum og víðar hafa hvatt þá til að færa völd þeirra til lýðræðislega kjörnar ríkisstjórnar en nú virðist sem þeir ætli þess í stað að berjast um yfirráð í Súdan.

Báðar fylkingar segjast stjórna helstu stofnunum og herstöðvum Kartúm.

Talsmaður súdanska hersins hefur sakað RSF-liða um að hafa ráðist á hermenn suður af Kartúm í morgun og að hafa einnig ráðist á flugvöllinn í höfuðborginni og kveikt þar í flugvélum.

Dagalo segir hins vegar að hermenn hafi umkringt RSF-liði og þess vegna hafi átökin byrjað.

„Þessi glæpamaður þvingaði okkur til að berjast,“ sagði Dagalo, samkvæmt AP fréttaveitunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×