Erlent

Máli Dominion gegn Fox frestað vegna sátta­um­leitana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sean Hannity og Tucker Carlson eru meðal þeirra sem verða kallaðir til vitnis.
Sean Hannity og Tucker Carlson eru meðal þeirra sem verða kallaðir til vitnis. Getty/Michael M. Santiago

Dómarinn í máli Dominion Voting Systems gegn Fox News hefur frestað fyrirtöku málsins um sólahring. Til stóð að málflutningur hæfist í dag en honum hefur verið frestað fram á morgun.

Samkvæmt heimildum Wall Street Journal tengist frestunin sáttarviðræðum milli aðila en forsvarsmenn Fox eru sagðir afar áhugasamir um að semja. Ef málið fer fyrir dóm má gera ráð fyrir að tvær stærstu stjörnur Fox, Sean Hannity og Tucker Carlson, verði kallaðar til vitnis.

Dominion hefur krafið Fox um 1,6 milljarð Bandaríkjadala í miskabætur, þar sem þáttastjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar hafi vísvitandi haldið frammi ósannindum um búnað fyrirtækisins, sem var notaður í forsetakosningunum 2020.

Umfjöllun Fox tengdist ósönnum staðhæfingum Donald Trump um að kosningunum hefði verið „stolið“.

Skilaboð á milli starfsmanna Fox hafa leitt í ljós að þeir vissu vel að sá málflutningur sem þeir héldu á lofti í beinni útsendingu var rangur. Þá voru þeir jafnvel ósáttir við framgöngu Trump en tóku engu að síður undir allt sem frá honum kom þegar þeir voru í mynd.

Sumir óttast að það muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér ef Fox tapar; að þá muni málum sem beinast gegn fréttaflutningi fjölmiðla fjölga verulega. Aðrir benda hins vegar á að mál Dominion sé afar vel rökstutt og muni sýna fram á að fjölmiðlar verði að axla ábyrgð þrátt fyrir að njóta ákveðins frelsis. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×