Kraftajötuninn reyndi við nýtt persónulegt met á dögunum þegar hann boðaði fjöldann allan af kraftakörlum í líkamsræktarstöð sína. Var atburðinum streymt á Twitch- og Yotube-síðu Hafþórs.
Reyndi hann við þrjár þyngdir í bekkpressu. Hann lyfti 230 kílógrömmum og 240 kílógrömmum nokkuð auðveldlega. Þegar hann reyndi hins vegar við 252,5 kílógrömm kom áfallið.
Hann hefur aldrei áður lyft slíkri þyngd og tókst það ekki heldur að þessu sinni. Er hann reyndi við lyftuna var ljóst að eitthvað fór úrskeiðis því Hafþór Júlíus öskraði af sársauka.
Hafþór Júlíus reif brjóstvöðva og tókst því ekki að bæta persónulegt met sitt í bekkpressu. Hann gat þó staðið upp óstuddur og yfirgaf líkamsræktina í kjölfarið.
Ekki er vitað hversu lengi Hafþor Júlíus verður frá keppni en hann hefur ekki enn tjáð sig um atvikið.