Íslenski boltinn

KR og Víkingur víxla leikjum | Mætast í Víkinni á mánudag

Valur Páll Eiríksson skrifar
Meistaravellir eru ekki klárir.
Meistaravellir eru ekki klárir. Vísir/Pawel

KR og Víkingur Reykjavík hafa samið um að víxla heimaleikjum liðanna í deildarkeppni Bestu deildar karla í sumar. Meistaravellir í Vesturbæ er ekki klár til knattspyrnuiðkunar er liðin eigast við í næstu umferð.

KR á heimaleik í Mjólkurbikarnum við Þrótt Vogum annað kvöld en fékk undanþágu til að spila leikinn á gervigrasi sínu. Slíkt verður ekki við unað í Bestu deildinni og hafa þeir samið við Víkinga um að skipta á heimaleikjum. Liðin mætast því á KR-velli í 16. umferð, þann 23. júlí.

Leiknum hefur einnig verið frestað um 75 mínútur og hefst því klukkan 19:15 á mánudagskvöldið, 24. apríl, á Víkingsvelli en hann átti að fara fram klukkan 18 í Frostaskjólinu.

ÍBV samdi með samskonar hætti við KA fyrir leik liðanna í síðustu umferð sem fór fram á Akureyri en átti að vera í Vestmannaeyjum. Keflavík færði leik sinn við KR um helgina af grasvelli félagsins á gervigrasvöll við Nettóhöllina og þá vildu FH-ingar ekki spila á sínum grasvelli í Kaplakrika, fengu þó ekki skipti við Stjörnuna, og spiluðu því á Miðvelli, frjálsíþróttavelli félagsins.

Grasvellir liðanna fjögurra koma allir illa undan vetri og óvíst hvenær þeir verða hæfir til knattspyrnuiðkunar sem sæmir efstu deild en fulltrúar þeirra flestra hafa kvaðst binda vonir við að það verði sem fyrst.

KR er með fjögur stig eftir tvo fyrstu leikina, jafntefli við KA á Akureyri og 2-0 sigur á Keflavík um helgina. Víkingar eru einir á toppi deildarinar með fullt hús eftir 2-0 sigra á Stjörnunni og Fylki í upphafi móts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×