Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan 33 - 22 KA/Þór | Stjarnan sendi KA/Þór í sumar­frí

Dagur Lárusson skrifar
341998766_249826147410269_8990026299027213041_n
vísir/diego

Stjarnan sendi lið KA/Þórs í sumarfrí með sigri í oddaleik liðanna í úrslitakeppni Olís deildar kvenna í dag. Leiknum lauk með ellefu marka sigri Stjörnunnar, 33-22, í leik sem var í raun aldrei í hættu.

Stjarnan er komin í undan­úr­slit í úr­slita­keppni Olís-deild kvenna í hand­bolta eftir sigur í odda­leik gegn KA/Þór í dag.

Stjarnan hafði betur í fyrstu viður­eign liðanna þann 17.apríl á meðan KA/Þór fór létt með Stjörnuna í síðasta leik og því þurfti að grípa til odda­leiks.

Stjarnan byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 3-0 eftir að­eins tæpar tvær mínútur og á sama tíma virtust gestirnir ekki sjá til sólar og Andri var kominn með leik­hlés spjaldið í hendurnar rétt áður en Ida kom þeim á blað og eftir það var leikurinn mikið jafnari en Stjarnan þó alltaf skrefi á undan.

Staðan í hálf­leik var 14-10 og því gat enn­þá allt gerst en það varð ljóst heldur snemma í seinni hálf­leiknum í hvað stefndi því Stjarnan setti í flug­gírinn. Þegar að­eins um sex mínútur voru liðnar af seinni hálf­leiknum var staðan orðin 19-13 og Andri tók þá leik­hlé fyrir sitt lið. 

Það virtist þó skila litlu þar sem Stjarnan hélt á­fram að stækka for­skot sitt. Þegar um korter var eftir af leiknum var Hrannar búinn að taka lykil­leik­menn eins og Elísa­betu, Önnu Karen, Evu Björk og Hönnu Guð­rúnu úr leiknum og leyfði yngri leik­mönnum að spila og það virtist ekki breyta neinu, Stjarnan hélt ein­fald­lega á­fram að bæta við for­skot sitt.

Að lokum var staðan 33-22 og því ellefu marka sigur Stjörnunnar stað­reynd og mun liðið mæta Val í undan­úr­slitunum.

Af hverju vann Stjarnan?

Gæðin í liðið Stjörnunnar voru of mikil fyrir gestina í dag að mínu mati. KA/Þór var auð­vitað án Rutar og það munar um hana. En Stjarnan spilaði frá­bæran sóknar­leik sem og varnar­leik allan leikinn.

Hverjir stóðu upp­úr?

Enn og aftur reyndist Dari­ja í markinu mikil­væg Stjörnunni en hún varði tólf skot og oftar en ekki varði hún og sendi boltann strax upp í hraða­upp­hlaup sem skilaði marki. Svo eins og vana­lega var Helena Rut frá­bær í liði Stjörnunnar, bæði sóknar­lega og varnar­lega.

Hvað fór illa?

Gestirnir virtust gefast upp um mið­bik seinni hálf­leiksins, það var auð­vitað á brattann að sækja en leikurinn var samt sem áður ekki unninn á þeim tíma­punkti.

Hvað gerist næst?

KA/Þór er komið í sumar­frí á meðan Stjarnan mætir Val í undan­úr­slitunum.

Hrannar Guð­munds­son: Við skuldum sigur gegn Val

Hrannar Guðmundsson þjálfari StjörnunnarVísir/Hulda Margrét

„Já ég myndi segja að allt hafi gengið upp í dag, við vorum bara frá­bærar frá A-Ö,“ byrjaði Hrannar Guð­munds­son, þjálfari Stjörnunnar, að segja eftir leik.

„Ég er hrika­lega á­nægður með það hvernig við svöruðum síðasta leik. Við mættum hérna grjót­harðar, geggjaður leikur og frá­bær stemning,“ hélt Hrannar á­fram.

Hrannar talaði sér­stak­lega um vörnina í leiknum.

„Vörnin okkar var auð­vitað frá­bær og síðan náðum við líka upp góðum sóknar­leik á köflum, til dæmis mikið af hraða­upp­hlaupum sem við náðum sem ég er mjög á­nægður með því það er svo­lítið búið að vera okkar merki í vetur.“

Hrannar á­kvað að hvíla lykil­leik­menn um mið­bik seinni hálf­leiksins og gaf yngri stelpunum gott tæki­færi.

„“Já það er frá­bært að þær geti komið inn í þetta og skilað sínu, þær voru að skora og nýta tæki­færin sín þannig það var frá­bært að sjá það.“

Stjarnan mun nú mæta Val í næstu viður­eign en Hrannar segir að liðið sitt skuldi sigur á Val.

„Þetta verður hörku ein­vígi, við skuldum sigur gegn Val í vetur þannig þetta verður tíminn til þess,“ endaði Hrannar á að segja.

Andri Snær Stefáns­son: Við ætlum ekki að fela okkur bak­við ein­hver meiðsli

Andri Snær er þjálfari KA/ÞórVísir/Hulda Margrét

„Ég er rosa­lega súr með það hvernig við spiluðum þennan leik,“ byrjaði Andri Snær Stefáns­son, þjálfari KA/Þórs að segja eftir leik.

„Við vorum undir á öllum víg­stöðum í dag, Stjarnan var að leiða allan leikinn og við þar með að elta og þær áttu ein­fald­lega sigurinn skilið,“ hélt Andri Snær á­fram.

Andri Snær talaði um tapaða bolta og glötuð tæki­færi á að ná hraða­upp­hlaupum þegar hann var spurður út í það hvar leikurinn tapaðist.

„Við áttum of mikið af töpuðum boltum í fyrri hálf­leik og það var mikið um glötuð tæki­færi á því að keyra upp í hraða­upp­hlaup, þar liggur svo­lítið munurinn og við vorum sjálfum okkur verstar þar. En í seinni hálf­leiknum þá var spennu­stigið ein­fald­lega ekki nógu gott þar sem við vorum að elta og lentum í vand­ræðum út frá því. Allt í einu var Stjarnan komin með gott for­skot og við þurftum að bregðast við, reyndum mikið af hlutum sem gengu ekki upp og því fór sem fór.“

KA/Þór var án Rutar Jóns­dóttur í leiknum sem og fleiri leik­manna og þannig hefur staðan verið oft á tíðum hjá liðinu í vetur og vildi Andri meina að liðið hafi verið svo­lítið ó­heppið varðandi meiðsli en vildi þó ekki fela sig bak­við það.

„Já við vorum án stórra pósta í þessum leik sem og í vetur sem hefðu getað nýst okkur vel eins og til dæmis Rut. En við ætlum ekkert að fela okkur bak­við það því við vissum þetta og við ætluðum að koma hingað í dag og vinna og þess vegna er ég mjög súr núna,“ endaði Andri á segja.

Helena Rut: Þegar vörnin smellur þá fylgir allt annað

Helena Rut í leik með StjörnunniVísir/Hulda Margrét

Helena Rut Örvars­dóttir, fyrir­liði Stjörnunnar, var að vonum á­nægð eftir sigur liðsins á KA/Þór í átta liða úr­slitum Olís-deildar kvenna í dag.

„Já ég myndi segja að allt hafi gengið upp í dag á meðan að það gekk eigin­lega ekkert upp í síðasta leik,“ byrjaði Helena á að segja.

„Við þurfum heldur betur að svara fyrir okkur eftir síðasta leik og þess vegna var gott að það small allt í dag og þá sér­stak­lega varnar­lega séð því þá fáum við hraða­upp­hlaupin sem skipta okkur svo miklu máli,“ hélt Helena á­fram.

„Í leiknum fyrir norðan vorum við að gera mikið af mis­tökum vegna þess að við vorum ekki með ein­beitingu í vörninni, vorum ekki að hjálpa hvor annarri, vorum ekki sam­stilltar en í dag var það allt öðru­vísi. Um leið og vörnin kemur hjá okkur þá fylgir allt annað eins og Dari­ja sem var geggjuð fyrir aftan okkur.“

Helena tók síðan undir orð þjálfara síns varðandi það að þær skuldi sigur gegn Val.

„Heldur betur, ég tek undir þau orð. Við erum búnar að spila vel gegn Val í vetur og þá sér­stak­lega í síðasta heima leiknum gegn þeim, þar áttum við klár­lega að vinna. Þannig við mætum þeim með blóðið á tönnunum,“endaði Helena Rut, fyrir­liði Stjörnunnar, að segja eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira