Handbolti

„Gott fyrir mig að fá þetta mótlæti“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ýmir Örn Gíslason í leik með íslenska landsiðlinu á EM 2022.
Ýmir Örn Gíslason í leik með íslenska landsiðlinu á EM 2022. EPA/ANDREAS HILLERGREN

Landsliðsmaðurinn Ýmir Örn Gíslason segir að það hafi verið rétt skref fyrir sig á sínum tíma að fara úr efstu deild á Íslandi til stórliðs Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.

Ýmir samdi við Rhein-Neckar Löwen árið 2020 og kom hann til félagsins beint frá Val. Löwen er eitt stærsta félagið í þýsku deildinni. Ýmir leikur mestmegnis í vörninni hjá liðinu en fær einnig sín tækifæri inni á línunni.

„Eftir á að hyggja finnst mér það ekki hafa verið rangt skref hjá mér að fara út í þennan klúbb. Ég kem inn í frábæran klúbb. Fyrstu tvö árin svolítið erfið, við erum með fjóra þjálfara og klúbburinn að ganga í gegnum ákveðna lægð. Við fáum nýjan þjálfara inn núna sem er með góða sýn á hlutina. Það sýndi sig eflaust núna þar sem við kláruðum bikarinn og vinnum hann. Ég myndi segja við alla handboltamenn að taka eins stór skref og þú getur, alltaf,“ segir Ýmir og heldur áfram.

 „Alveg frá byrjun var ég að spila mikið en svo hefur þetta kannski aðeins breyst á þessu tímabili. Ég byrjaði á því að spila ekki neitt en það er eitthvað sem allir ganga í gegnum. Eftir á að hyggja var það bara gott fyrir mig að fá þetta mótlæti. Þá er gott að hafa góða í kringum sig. Svo stækkaði hlutverkið því sem meira leið á tímabilið.“

Tímabilið hefur verið ágætt í deildinni hjá Rhein-Neckar Löwen á tímabilinu en liðið situr í 5. sætinu. Liðið hafnaði í 10. sætinu á síðasta tímabili.

„Við töpuðum fjórum leikjum í röð á tímabilinu sem er frekar dýrt fyrir okkur núna og svekkjandi. Klúbburinn gaf það út fyrir mót að við vildum vera í efstu fimm sætunum. Við erum núna í fimmta sætinu og það eru átta stig í næsta sæti. Bikarmeistarar. Ég held að við séum sannarlega á pari á þessu tímabili.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×