Eyþór Aron Wöhler samdi við Íslandsmeistara Breiðablik síðasta haust eftir að hafa spilað með ÍA í Bestu deild karla í knattspyrnu síðasta sumar. Þó ÍA hafi fallið þá spilaði Eyþór Aron nægilega vel til að Breiðablik vildi fá hann í sínar raðir.
Mikið hefur verið rætt og ritað um stóran hóp Breiðabliks og nú hefur þjálfarateymið tekið þá ákvörðun að lána Eyþór Aron upp í efri byggðir Kópavogs. Nýliðar HK taka honum fagnandi þar sem liðið er heldur fámennt fram á við þó það hafi ekki komið að sök til þessa á leiktíðinni.
Eyþór Aron hefur aðeins komið sögu í einu af þremur leikjum Breiðabliks í Bestu deildinni á leiktíðinni en hann tapaði boltanum í aðdraganda sigurmarks HK í dramatískum 4-3 sigri nýliðanna á Breiðablik í 1. umferð deildarinnar.
Framherjinn spilaði svo klukkustund í 2-0 sigri á Lengdjudeildarliði Fjölnis í Mjólkurbikarnum en mun nú spila með HK það sem eftir lifir tímabils. Hafði HK betur í baráttunni við Fylki og ÍBV en bæði lið vildu fá leikmanninn í sínar raðir.
HK er í 4. sæti Bestu deildar með 4 stig að loknum þremur umferðum á meðan Breiðablik er í 8. sæti með 3 stig.