Innlent

Rússar segja traustið horfið í Norður­skauts­ráðinu

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Korchunov efast um að samstarf við Vesturveldin gangi upp til langrar framtíðar.
Korchunov efast um að samstarf við Vesturveldin gangi upp til langrar framtíðar. Norðurskautsráðið

Nikolay Korchunov, sendiherra Rússa gagnvart Norðurskautsráðinu segist efast um að samstarf á norðurslóðum sé mögulegt lengur. Allt traust sé horfið.

„Það er ekki fýsilegt að koma á langtíma samstarfi við Vesturveldin í Norðurskautsráðinu, jafn vel eftir að það tekur aftur til starfa að fullu af því að traustið er ekki lengur til staðar,“ sagði Korchunov í dag á fundi í Rússlandi um Norðurslóðamálefni, en hann gegnir stöðu formanns fastafulltrúa Rússlands í Norðurskautsráðinu. Rússneski ríkisfjölmiðillinn Tass greindi frá þessu.

Auk Rússlands eiga Bandaríkin, Kanada og öll Norðurlöndin sæti í Norðurskautsráðinu. Þar að auki eiga fjölmörg ríki áheyrnarfulltrúa, svo sem Bretland, Þýskaland, Frakkland, Kína, Indland og Japan.

Síðasti ráðherrafundurinn fór fram í Reykjavík í maí mánuði árið 2021. Þá tóku Rússar við formennsku í ráðinu af Íslendingum.

Þann 3. mars árið 2022 tilkynntu öll ríki sem hafa fastafulltrúa nema Rússland að þau hygðust ekki mæta á fundi ráðsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Hefur virkni ráðsins verið í lamasessi síðan þá, nema í nokkrum afmörkuðum verkefnum sem ríkin sjö sinna án aðkomu Rússa.

Norðmenn taka við

Korchunov sagði að samskipti Rússlands og Vesturveldanna á norðurslóðum einkenndust af virðingu við málefni svæðisins, sem verður sífellt mikilvægara. Samskiptin væru nú hins vegar öll óformleg.

Norðmenn taka við kefli formennskunnar á fundi sem haldinn verður dagana 10. til 11. maí næstkomandi. Ríkin sjö hafa ákveðið að starfa án Rússa í ráðinu.


Tengdar fréttir

„Ljóst að yfir­standandi at­burðir hafa stór­skaðað sam­starf norður­skauts­ríkja“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er stödd í Tromsø í Noregi en þar stendur yfir norðurslóðaráðstefnan Arctic Frontiers. Innrás Rússlands í Úkraínu og afleiðingar hennar fyrir norðurslóðasamstarf voru efst á baugi í umræðum utanríkisráðherra Íslands, Noregs og Svíþjóðar og ráðuneytisstjóra finnska utanríkisráðuneytisins á ráðstefnunni í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×