Innlent

Guð­mundur Felix fór aftur í að­gerð í gær­kvöldi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðmundur Felix fór í aðra aðgerð á handlegg í gærkvöldi þar sem skorið var enn hærra í handlegg hans vegna þrálátrar sýkingar.
Guðmundur Felix fór í aðra aðgerð á handlegg í gærkvöldi þar sem skorið var enn hærra í handlegg hans vegna þrálátrar sýkingar. Vísir/Vilhelm

Guð­mundur Felix Grétars­son var sendur í aðra að­gerð á hand­legg í gær­kvöldi vegna höfnunar líkama hans á hand­leggjunum sem græddir voru á hann fyrir tveimur árum. Hann hafði áður farið í að­gerð á laugar­dags­kvöld en jafnaði sig ekki nægi­lega vel.

Þessu greinir Guð­mundur frá í á­varpi til fylgj­enda sinna á sam­fé­lags­miðlum. Horfa má á mynd­bandið neðst í fréttinni.

Eins og Vísir hefur greint frá fékk Guð­mundur sýkingu í oln­bogann vegna sterameð­ferðar sem hann hefur verið í sem gert hefur ó­næmis­kerfi hans ó­virkt. Sterameð­ferðin er gríðar­lega sterk og til þess fólgin að hafa á­hrif á höfnun líkama hans á á­græddum hand­leggjunum.

Oln­bogi Guð­mundar var orðinn þre­faldur af stærð og fór hann í að­gerð á laugar­dags­kvöld þar sem tappað var af oln­boganum eins og hann lýsir því, til þess að sterarnir komist sína leið í hand­leggnum.

Fékk hita í gær­kvöldi

„Á laugar­dag fór ég í að­gerð þar sem þeir opnuðu oln­bogann á mér til þess að hreinsa sýkinguna sem var í oln­boganum og við höfðum ekki náð í með sýkla­lyfjum,“ segir Guð­mundur Felix.

Í gær­kvöldi hafi Guð­mundur verið með hita og sýkingin í hand­leggnum haldið sér í honum þrátt fyrir sýkla­lyfin.

„Þannig að í morgun var á­kveðið að ég færi í aðra að­gerð. Við skárum hærra í hand­legginn þannig hann er opinn alla leið frá öxl og niður að hönd.“

Ekki eins sárs­auka­fullt

Guð­mundur segir hand­legginn hafa verið þrifinn og þrifinn og hann sé enn á sýkla­lyfjum.

„Nú þurfum við bara að bíða og sjá. Ég er ekki með hita. Mér líður á­gæt­lega. Hand­leggurinn er enn bólginn en þetta er ekki eins sárs­auka­fullt.“

Á næstu dögum muni það skýrast hvernig þetta fer. Hann segist fylgjast vel með öllum skila­boðum frá fólki á sam­fé­lags­miðlum en sé ekki í standi til þess að svara þeim sjálfum.

„Ég get rétt notað fingurna, en takk kær­lega fyrir stuðninginn. Ég læt ykkur vita hvernig þetta fer.“


Tengdar fréttir

Fjögurra ára skammtur stera gæti hafa stöðvað höfnunina

Guðmundur Felix Grétarsson hefur legið á spítala undanfarið þar sem hann hefur fengið gríðarlega sterka sterameðferð vegna höfnunar líkama hans á handleggjunum, sem græddir voru á hann fyrir tveimur árum. Hann segist hafa fengið fjögurra ára skammt af sterum á síðustu þremur dögum og að hann gæti hafa stöðvað höfnunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×