Erlent

Fyrsti prófsteinninn á Íhaldsflokk Sunak

Kjartan Kjartansson skrifar
Breskar sveitarstjórnir sjá um nærþjónustu eins og sorphirðu, almenningssamgöngur og rekstur skóla. Kosið er til um 230 sveitarstjórna í dag.
Breskar sveitarstjórnir sjá um nærþjónustu eins og sorphirðu, almenningssamgöngur og rekstur skóla. Kosið er til um 230 sveitarstjórna í dag. Vísir/EPA

Kosið er til sveitarstjórna á Bretlandi í dag. Þetta eru fyrstu kosningarnar frá því að Rishi Sunak tók við Íhaldsflokknum eftir margra mánaða glundroða. Búist er við því að flokkurinn tapi fjölda sæta í kosningunum sem gætu gefið hugmynd um hvar íhaldsmenn standa fyrir þingkosningar á næsta ári.

Horfurnar þykja ekki góðar fyrir Íhaldsflokkinn fyrir kosningarnar í dag. Verkamannaflokkurinn hefur mælst með meira en tíu stiga forskot í skoðanakönnunum á landsvísu eftir hrakfarir íhaldsmanna undanfarin misseri. 

Sunak tók við sem forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins af Liz Truss sem skapaði glundroða með efnahagsstefnu sinni í fyrra. Truss hafði sjálf tekið við af Boris Johnson innan við tveimur mánuðum fyrr. Johnson sagði af sér í skugga hvers hneykslismálsins á fætur annars.

Fleiri en átta þúsund sæti í 230 sveitarstjórni eru í boði í kosningunum í dag. Reuters-fréttastofan segir að stóru flokkarnir tveir reyni að stilla væntingum í hóf fyrir þær. Þannig sagði formaður Íhaldsflokksins að flokkurinn gæti tapað um þúsund sætum. Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir sinn flokk eiga að vinna á vegna þess hversu illa hann stóð sig síðast.

Búist er við því að þingkosningar verði haldnar á næsta ári. Úrslit sveitarstjórnarkosninganna nú gætu gefið innsýn í hvort að Verkamannaflokkurinn eigi möguleika á að velta Íhaldsflokknum úr sessi. Verkamannaflokkurinn hefur ekki setið í ríkisstjórn frá árinu 2010.

Sú nýbreytni er í sveitarstjórnarkosningunum í dag að kjósendur þurfa að sýna skilríki með mynd til þess að kjósa. Könnun sem birt var í síðustu viku bendir til þess að fjórðungur kjósenda sé grunlaus um þá breytingu og því er hætta á að einhverjum verði vísað frá kjörstöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×