Íslenski boltinn

„Ég hef talað mikið við Sölva“

Jón Már Ferro skrifar
Logi Tómasson er með frábæran vinstri fót.
Logi Tómasson er með frábæran vinstri fót. Vísir/Hulda Margrét

Logi Tómasson hefur spilað mjög vel í fyrstu fimm leikjum Bestu deildarinnar. Hann lagði upp mark í kvöld og var mjög sannfærandi. Bæði sóknarlega og varnarlega. Hann lætur aðra um að dæma um frammistöðu sína.

„Ég veit það ekki. Menn verða að dæma um það sjálfir. Ég var solid í þessum leik og hef verið solid í þessum fimm leikjum í upphafi tímabils. Ég er mjög ánægður,“ sagði Logi.

Logi spilar sem vinstri bakvörður í grunninn. Sóknarlega fer hann oftar en ekki inn á miðjuna og tekur virkan þátt í spilinu. 

„Mér finnst það geðveikt. Ég held ég sé búinn að spila þrjár stöður í þessum fimm leikjum. Ég er búinn að vera fimm ár hjá Arnari frá því hann kom fyrst. Þegar maður hefur verið svona lengi hjá Arnari lærir maður mikið. Ég er búinn að spila allar stöður nema markmann og læra vel inn á þær allar. Þetta er ógeðslega gaman,“ sagði Logi.

Logi getur ómögulega sagt hvaða staða honum finnst skemmilegust. Varnarleikurinn hefur nýlega fangað hug hans og hjarta. Augljósar bætingar hafa orðið á varnarleik hans.

„Mér finnst þær allar skemmtilegar en mér finnst orðið mikið skemmtilegra að verjast í dag. Ég er að reyna bæta mig í varnarleiknum. Það er það eina sem ég er að fókusa á. Svo kemur sóknarleikurinn. Ég er með hann bara í mér,“ sagði Logi.

Sölvi Geir Ottesen er einn allra besti varnarmaður sem Ísland hefur alið af sér. Hann er nú aðstoðarþjálfari Víkinga og miðlar sinni reynslu til Loga og félaga.

„Ég hef talað mikið við Sölva og unnið mikið með honum. Við förum yfir klippur eftir alla leiki og við erum aldrei sáttir. Við förum alltaf yfir mistökin. Það er alltaf hægt að finna litla hluti sem hægt er að laga. Ef maður lagar einn hlut í einu. Þá getur maður bætt sig mikið,“ sagði Logi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×