Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um stöðu jarðgangamála á Íslandi. Í gildandi samgönguáætlun er miðað við að jarðgöng undir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar verði næsta stórverkefni. Meðal Austfirðinga eru hins vegar skiptar skoðanir um þá forgangsröðun.
„Það er alveg rétt að það hafa verið skiptar skoðanir á Austurlandi um hvaða leið skyldi fara. En við erum að vinna samgönguáætlun núna. Þar verður jarðgangaáætlun og ég hef boðað það að í henni muni birtast öll þau helstu jarðgöng sem við þurfum að fara í á næstu þrjátíu árum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Og það eru ekki bara Austfirðingar sem vilja jarðgöng. Bæði á Vestfjörðum og Norðurlandi er kallað eftir göngum og það sem fyrst. Sunnanlands eru jarðgöng um Reynisfjall komin í lög um samvinnuverkefni og innviðaráðherra hefur boðað stofnun starfshóps til að kanna fýsileika jarðganga milli lands og Vestmannaeyja. En er það ennþá stefnan að Fjarðarheiðargöng verði næst eða kemur til greina að endurskoða það?
„Ég ætla ekki að flagga því hvað kemur í samgönguáætluninni, hvorki varðandi jarðgöng eða aðra þætti fyrr en hún birtist.“
Ráðherrann segir samgönguáætlun verða lagða fyrir Alþingi í vor og hún fari síðan til viðkomandi þingnefndar.
„Ég vonast til að nefndin, sem að eftirvæntingarfull bíður eftir þessu verkefni, eins og margir aðrir, að hún leggist yfir það. Hvort þeir nái að klára það í vor, það kemur í ljós.“
Það ríkir hins vegar óvissa um hvernig jarðgangagerðin verður fjármögnuð en verkefnastofa fjármálaráðuneytis og innviðaráðuneytis er að móta tillögur í þeim efnum.
„Skoða meðal annars stofnun einhverskonar jarðgangafélags, eða innviðafélags, sem myndi þá standa fyrir öllum þessum framkvæmdum, og við myndum taka upp einhverskonar gjaldtöku,“ segir Sigurður Ingi.

Hörð viðbrögð urðu í fyrra þegar ráðherrann kynnti áform um gjaldtöku af öllum jarðgöngum landsins, ekki síst frá Skagamönnum sem sáu fram á að þegar uppgreidd Hvalfjarðargöng myndu þurfa að standa undir stórum hluta nýrra jarðgangatolla. Hvenær tillögur um fjármögnun birtast segir ráðherrann skýrast með vinnu verkefnastofu ráðuneytanna.
„Nákvæmlega hvenær henni lýkur þori ég ekki að fullyrða. En við munum allavegana koma með innspil þaðan eins fljótt og hægt er.“
-En hvenær sýnist þér að hægt verði að bjóða út næstu göng og hefja framkvæmdir?
„Það mun annarsvegar hanga á fjármögnuninni og niðurstöðu Alþingis um samgönguáætlun,“ svarar innviðaráðherra.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: