Körfubolti

Ítalskur níð­söngur á Hlíðar­enda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var vel mætt á Híðarenda.
Það var vel mætt á Híðarenda. Vísir/Bára Dröfn

Það er alþekkt að stuðningsfólk íþróttaliða syngi söngva til að styðja lið sitt og jafnvel til að ögra andstæðingnum. Það er þekkt að sama laglínan fari landanna á milli en það er þó sjaldan sem það er fréttnæmt, fyrr en nú.

Þegar kemur að því að semja texta fyrir fjölda fólks sem kemur saman og syngur á íþróttaviðburðum án þess að hafa æft sig er góð laglína gulls ígildi. Þá er það þekkt að íslensk dægurlög séu byggð á ítölskum laglínum og leitaði stuðningsfólk Vals í þá þekktu boðleið þegar kom að uppfæra söngbók Íslandsmeistaranna.

Valur tók á móti Tindastól í fyrsta leik úrslitaeinvígis Subway-deildar karla í körfubolta. Þó Tindastóll hafi unnið leikinn með minnsta mun virðist sem kraftmikill söngur Valsara á Hlíðarenda hafi heyrst alla leið til Ítalíu. 

Það sem Ítalirnir skilja ekki er hvernig lag, sem upprunalega var samið sem níðsöngur um Juventus, rataði alla leið til Íslands. 

Samkvæmt heimildum Vísis er téður níðsöngur einkar vinsæll á samfélagsmiðlinum TikTok. Þar sem blaðamaður er eldri en tvævetur þá getur hann ekki staðfest það.

Klippa: Nýtt stuðningsmannalag Vals

Það er hins vegar svo að stuðningsfólk Vals hefur tekið laginu ástfóstri og hver veit nema lagið verði sungið í  Síkinu á Sauðárkróki þegar Valur og Tindastóll mætast öðru sinni í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

Annar leikur liðanna fer fram í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 18.30, leikurinn sjálfur 19.15 og Körfuboltakvöld er á sínum stað að leik loknum.

Það má einnig búast við góðri mætingu í kvöld.Vísir/Bára Dröfn

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×