Fótbolti

Kærustuparið að verða liðsfélagar íslensku landsliðsstelpnanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magdalena Eriksson og Pernille Harder hafa unnið marga titla með Chelsea undanfarin ár.
Magdalena Eriksson og Pernille Harder hafa unnið marga titla með Chelsea undanfarin ár. Getty/Naomi Baker -

Knattspyrnuparið Magdalena Eriksson og Pernille Harder eru að enda tíma sinn hjá Chelsea og ætla að færa sig yfir í Íslendingaliðið Bayern München fyrir næstu leiktíð.

Erlendir fjölmiðlar segja frá því að landsliðskonurnar ætli að hjálpa Bayern að taka næsta skref en þýska liðið féll út í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í ár.

Hin sænska Eriksson spilar sem miðvörður og hefur verið hjá Chelsea en hún kom til enska liðsins frá Linkoping. Hin danska Harder spilar í fremstu víglínu og hefur verið leikmaður Chelsea frá 2020 eftir að enska félagið borgaði Wolfsburg metupphæð fyrir hana.

Báðar eru þær frábærir leikmenn sem eru á leiðinni á HM í sumar með landsliðum sínum.

Tími þeirra hjá Chelsea var mjög farsæll en þær hjálpuðu liðinu meðal annars að vinna enska meistaratitilinn bæði 2021 og 2022 auk þess að vinna enska bikarinn tvisvar.

Eriksson og Harder hafa báðar spilað marga landsleiki fyrir þjóð sína, Harder 140 leiki fyrir danska landsliðið en Eriksson 95 landsleiki fyrir það sænska. Þær hafa verið par frá árin 2014.

Real Madrid var líka á eftir þeim en Bayern hafði betur.

Þær verða því liðsfélagar íslensku landsliðskvennananna Glódísar Perlu Viggósdóttur, Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Cecilíu Rán Rúnarsdóttur á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×