Íslenski boltinn

Komst upp með fólsku­­lega tæk­lingu í Laugar­­dal | „Meiddur eftir þetta bull“

Aron Guðmundsson skrifar
Skjáskot af umræddri tæklingu sem og mynd af eftirmálum hennar fyrir Kára
Skjáskot af umræddri tæklingu sem og mynd af eftirmálum hennar fyrir Kára Vísir/Samsett mynd

Ljóst er að betur fór en á horfðist þegar að Kári Kristjáns­­son, leik­­maður karla­liðs Þróttar Reykja­víkur í knatt­­spyrnu var tæklaður af leik­manni Leiknis Reykja­víkur í leik liðanna í 1.um­­­ferð Lengju­­deildarinnar um síðustu helgi.

Það er Bolli Már Bjarna­­son, stuðnings­­maður Þróttar Reykja­víkur sem vekur at­hygli á at­vikinu í færslu á sam­­fé­lags­­miðlinum Twitter í dag. Með færslunni mátti sjá upp­­töku af um­­ræddri tæk­lingu.

„Dómarinn dæmdi ekki á þetta! Gjör­­sam­­lega ó­­þolandi að menn komist upp með svona tæk­lingu, 1-3 yfir og 90+ á klukkunni. Línu­vörðurinn alveg við þetta en gerir ekkert,“ skrifar Bolli meðal annars í færslunni á Twitter.

Bolli beinir spjótum sínum síðan að Knatt­­spyrnu­­sam­bandi Ís­lands og spyr hvort dómarar sem dæmi á vegum sam­bandsins þurfi ekki VAR í hvelli.

„Leik­­maður Þróttar er meiddur eftir þetta bull.“Kári, sem komið inn á sem vara­­maður að­eins nokkrum mínútum áður en hann lenti í tæk­lingunni, birtir sjálfur mynd af stokk­bólgnum hægri fæti sínum eftir leik.

Sam­kvæmt heimildum Vísis eru meiðsli Kára vegna tæklingarinnar ekki eins slæm og talið var í fyrstu. Þróttur heim­sækir Fjölni í Egils­höllina í 2.um­ferð Lengju­deildarinnar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×