ÍL sjóður var stofnaður árið 2019 til að taka yfir skuldbindingar Íbúðalánasjóðs gagnvart skuldabréfaeigendum með kröfur á sjóðinn. Í skýrslu um stöðu sjóðsins sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti á Alþingi í október kemur fram að ÍL-sjóður muni fyrirsjáanlega ekki geta staðið undir öllum skuldbindingum sínum á gjalddaga og sé því í reynd orðinn ógjaldfær.
Fjármálaráðherra boðaði samningaviðræður við lífeyrissjóðina um uppgjör sjóðsins við þá en ef viðræðurnar skiluðu ekki árangri myndi hann leggja fram frumvarp um slit sjóðsins. Viðræður hafa ekki skilað árangri.
Bjarni hefur síðan birt áform um lagasetningu í samráðsgátt stjórnvalda. Þar segir að lögin ættu að tryggja að langtíma fjárfestar hefðu góða möguleika á að verða jafn eða betur settir miðað við einfalda ríkisábyrgð sem kveðið væri á um í skilmálum skuldabréfanna. Einnig að komið yrði í veg fyrir að vegna aðgerðaleysis stjórnvalda myndist án lagastoðar gríðarlegar viðbótarskuldbindingar sem kröfur á ríkissjóð.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar hefur sérstaka umræðu um málið þar sem fjármálaráðherra verður til svara á Alþingi eftir hádegi. Hún segir fjármálaráðherra með þessu vera að rétta af bókhald ríkissjóðs á kostnað almennings.
Líklega brot á eignarrétti
„Þarna er að öllum líkindum verið að brjóta gegn eignavörðum réttinidum fólks,“ segir Þorbjörg Sigríður. Þá væri pólitískt forvitnilegt að sjá að formaður Sjálfstæðisflokksins ætlaði ekki að standa vörð um eignaréttinn. Lífeyrissjóðirnir hefðu einnig boðað dómsmál fari ráðherra fram með frumvarp.
„Það er auðvitað mjög hættulegt fyrir allt íslenskt viðskiptalíf í landinu. Að vera með málaferli sem snúast um það hvort íslenskra ríkið standi við gerða samninga. Hvort íslenska ríkið sé tilbúið að fara út í það að breyta gerðum samningum með lögum,“ segir þingmaður Viðreisnar.
Það muni hafa áhrif á traust og trúverðugleika íslenska ríkisins í öllum viðskipum. Full ástæða væri til að reyna samningaleiðina enda miklir hagsmunir í húfi. Ráðherra hafi hins vegarfarið í þær viðræður með hótun um lagasetningu næði hann ekki markmiðum sínum.
Er hann ekki að gegna skyldu sinni sem fjármálaráðherra og gæta hagsmuna ríkissjóðs?
„Fjármálaráðherra sem gegnir hagsmunum ríkissjóðs með þeim hætti að rústa trúverðugleika íslenska ríkisins í öllum samningum; það er stórkostlega hættulegt fordæmi sem þar er verið að setja,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Umræðan á Alþingi hefst um klukkan 15:30.