Fótbolti

Sex marka jafntefli í Grafarvoginum | Tíu Njarðvíkingar björguðu stigi gegn Ægi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fjölnismenn gerðu jafntefli við Þrótt í kvöld.
Fjölnismenn gerðu jafntefli við Þrótt í kvöld. Vísir/Vilhelm

Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld þar sem Fjölnir og Þróttur gerðu 3-3 jafntefli í Egilshöllinni og Njarðvíkingar björguðu stigi gegn Ægismönnum.

Það var Máni Austmann Hilmarsson sem kom gestunum í Þrótti yfir gegn Fjölni strax á fyrstu mínútu áður en Kostiantyn Iaroshenko jafnaði metin fyrir Fjölnismenn um miðjan fyrri hálfleikinn.

Júlíus Már Júlíusson kom Fjölnismönnum svo yfir á 67. mínútu áður en Hákon Ingi Jónsson skoraði þriðja mark liðsins þremur mínútum síðar.

Þróttarar lögðu þó ekki árar í bát því Hinrik Harðarson minnkaði muninn á 89. mínútu og það var svo Ágúst Karel Magnússon sem jafnaði metin fyrir liðið á 94. mínútu og þar við sat.

Niðurstaðan því 3-3 jafntefli og Fjölnismenn með fjögur stig eftir tvo leiki, en Þróttarar voru að sækja sér sitt fyrsta stig.

Á sama tíma tóku Njarðvíkingar á móti Ægismönnum frá Þorlákshöfn þar sem þar sem Ivo Alexandre Pereira Braz kom gestunum í Ægi yfir strax á þriðju mínútu leiksins. Rafael Alexandre Romao Victor jafnaði hins vegar metin fyrir Njarðvíkinga eftir hálftíma leik, en Anton Fannar Kjartansson kom gestunum yfir á nýjan leik þegar um tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Marc Mcausland fékk svo að líta rauða spjaldið í liði Njarðvíkinga undir lok fyrri hálfleiksins og heimamenn þurftu því að spila allan seinni hálfleikinn manni færri.

Þrátt fyrir það tókst Njarðvíkingum að jafna metin þegar Oumar Diouck skoraði annað mark liðsins á 56. mínútu og þar við sat. Lokatölur því 2-2 og Njarðvíkingar eru með tvö stig eftir jafn marga leiki, en Ægismenn eitt.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara fengust á Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×