Erlent

Úkraínu­menn sagðir hafa sótt fram yfir varnar­línur við Bak­hmut

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Barist umhverfis Bakhmut.
Barist umhverfis Bakhmut. AP/Libkos

Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur séð sig tilneytt til að gefa út yfirlýsingu þess efnis að það sé ekkert til í fregnum um að Úkraínumönnum hafi tekist að rjúfa varnarlínur Rússa umhverfis Bakhmut.

Yfirlýsingin var gefin út í kjölfar þess að vinsælir hermálabloggarar í Rússlandi sögðu Úkraínumenn í sókn á nokkrum vígstöðvum. Þá sagði Yevgeny Prigozhin, leiðtogi Wagner-málaliðahópsins, að rússneskir hermenn hefðu yfirgefið stöður í Bakhmut sem hefði kostað blóð, svita og tár að ná á margra mánaða tímabili.

BBC hefur eftir stríðsfréttaritaranum Sasha Kots, sem styður innrás Rússa í Úkraínu, að gagnsókn Úkraínumanna sé hafin, þrátt fyrir að Vólódímir Selenskí Úkraínuforseti hafi sagt í gær að Úkraínumenn þyrftu meiri tíma til að undirbúa sig.

Kots segir „skriðdrekalestar“ á Karkív-hringveginum á leið að landamærunum að Rússlandi. Meðal hergagnanna séu skriðdrekar frá erlendum ríkjum.

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War segir líklegt að Úkraínumenn hafi ráðist yfir varnarlínur umhverfis Bakhmut og neytt Rússa til að hörfa um tvo kílómetra. Yfirlýsing varnarmálaráðuneytisins og ummæli Prigozhin séu til marks um aukin óróleika í Moskvu vegna yfirvofandi gagnárásar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×