Á vef Veðurstofunnar segir að skilin færist til austurs og á eftir skilunum taki við suðvestan gola eða kaldi með skúrum.
„Þessi veðraskipti gerast fyrst vestast á landinu, en austanlands dregur úr vindi og léttir til undir kvöldið. Loftmassinn yfir landinu er ágætlega hlýr og má búast við vænum hitatölum í hnjúkaþey á norðaustanverðu landinu, 16-17 stig þegar best lætur.
Á morgun nálgast síðan lægð beint úr suðri og það gengur í austan og norðaustan 5-13 á með rigningu, fyrst um landið sunnanvert. Hiti 6 til 12 stig. Spár gera síðan ráð fyrir að miðja þessara lægðar gangi til norðurs yfir austanvert landið. Það þýðir að á sunnudaginn snýst í norðlægari átt með úrkomu og kólnar í veðri,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Gengur í austan og norðaustan 5-13 m/s með rigningu, fyrst um landið sunnanvert. Hiti 6 til 12 stig.
Á sunnudag: Norðvestan og vestan 8-15. Víða rigning eða slydda, en þurrt að kalla Suður- og Vesturlandi seinnipartinn. Snjókoma á heiðum á norðanverðu landinu. Kólnandi veður.
Á mánudag: Norðlæg eða breytileg átt og víða slydda eða snjókoma um tíma, en rigning sunnanlands. Vægt frost á norðanverðu landinu, en hiti 1 til 6 stig sunnantil að deginum.
Á þriðjudag: Vaxandi sunnanátt, þykknar upp og fer að rigna, en bjartviðri norðaustan- og austanlands. Hlýnandi veður.
Á miðvikudag: Sunnan- og suðvestanátt með súld eða rigningu, en þurrt og bjart á norðaustanverðu landinu. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á fimmtudag (uppstigningardagur): Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 7 til 13 stig.