Þetta kemur fram í tilkynningu á vef MA sem Karl Frímannsson skólameistari undirritar. Þar segir að skólinn hafi undanfarið unnið með mál nemandans, sem hafi neyðst til að hætta námi við skólann vorið 2021.
Sögusagnirnar og ásakanirnar snerust um meinta nauðgun nemandans á yngri frænku sinni.
Þegar sams konar ásakanir hafi komi upp í Menntaskólanum við Hamrahlíð í haust gagnvart sama nemanda voru þær skoðaðar af ráðgjafarhópi á vegum mennta-og barnamálaráðuneytis og reyndust ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Vísir fjallaði ítarlega um mál nemandans, og fleiri nemenda við MH, síðasta haust.
„MA lítur málið alvarlegum augum enda hafa þessar sögusagnir haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir umræddan nemanda. Af hálfu skólans er hann beðinn afsökunar á að ekki hafi tekist að rétta hlut hans meðan á námi hans stóð í MA og standa vörð um hans rétt,“ segir í tilkynningu skólameistara.
Þá segir að skólinn hafi í vetur tekið virkan þátt í vinnu mennta- og barnamálaráðuneytisins um nýja viðbragðsáætlun í málum af þessu tagi og muni innleiða hana þegar hún verður birt á næstu vikum.