Fótbolti

Bayern styrkti stöðu sína á toppnum með stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thomas Müller kom þýsku meisturunum á bragðið í dag.
Thomas Müller kom þýsku meisturunum á bragðið í dag. Alexander Hassenstein/Getty Images

Bayern München er nú með fjögurra stiga forskot á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir að liðið vann öruggan 6-0 sigur gegn Schalke í dag.

Það var hinn síungi Thomas Müller sem kom þýsku meisturunum í forystu á 29. mínútu eftir stoðsendingu frá Leroy Sane áður en Joshua Kimmich tvöfaldaði forystu liðsins átta mínútum síðar með marki úr vítaspyrnu og staðan var því 2-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Serge Gnabry skoraði þriðja mark heimamanna snemma í síðari hálfleik og bætti svo því fjórða við á 66. mínútu.

Það var svo Mathys Tel sem kom Bayern í 5-0 með marki á 80. mínútu eftir stoðsendingu frá Jamal Musiala áður en Noussair Mazraoui gulltryggði 6-0 sigur liðsins í uppbótartíma.

Eins og áður segir er Bayern nú með fjögurra stiga forskot á toppi þýsku deildarinnar eftir sigur dagsins. Bayern er með 68 stig þegar liðið á tvo leiki eftir á tímabilinu, en Dortmund, sem situr í öðru sæti, á leik til góða og getur því minnkað muninn niður í eitt stig á nýjan leik síðar í dag þegar liðið tekur á móti Borussia Mönchengladbach.

Schalke situr hins vegar í 16. sæti með 30 stig og berst enn fyrir lífi sínu í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×