Umræðan

Of seint í (frumút­boðs)rassinn gripið

Baldur Thorlacius skrifar

Það þekkja ekki allir breska tæknifyrirtækið ARM. En tækni félagsins er samt flestum lesendum innan armslengdar. ARM þróar nefnilega örgjörva, m.a. fyrir snjallsíma. Að eigin sögn nota 95% af „betri snjallsímum“ (e. premium smartphones) örgjörva frá ARM. Með öðrum orðum er þetta risa fyrirtæki.

Ég hef fylgst nokkuð náið með fréttaflutningi af fyrirhuguðu frumútboði félagsins undanfarið ár. Málið vakti fyrst athygli mína þegar Boris Johnson, þá forsætisráðherra Bretlands, barðist persónulega fyrir því að félagið yrði tvískráð í Bretlandi, auk Bandaríkjanna (sem var fyrsta val eigenda). Fremur óvenjulegt að stjórnmálamenn blandi sér í svona mál. En sýnir hvað það var talið mikilvægt, ekki bara fyrir breska hlutabréfamarkaðinn heldur fyrir efnahagslífið í heild sinni, að félagið sæi hag sinn í því að vera skráð á heimamarkað.

Slík skráning myndi sýna að breski markaðurinn gæti stutt við innlend tæknifyrirtæki og gert þeim kleift að vaxa í Bretlandi. Upp á það að gera skipti nefnilega máli hvar félögin væru fjármögnuð. Liz Truss tók við keflinu eftir að Boris Johnson steig til hliðar og hélt baráttunni áfram. Rishi Sunak, núverandi forsætisráðherra Bretlands, gerði slíkt hið sama eftir að hann tók við. Skráning á heimamarkað var sett í hæsta forgang, öllu tjaldað til og jafnvel rætt um að breyta regluverki til að liðka fyrir skráningunni, allt þar til félagið valdi bandaríska Nasdaq markaðinn og útilokaði þann breska. Of seint í rassinn gripið.

Ólíkt Bretum höfum við yfirleitt fagnað öllum hugmyndum um að koma þeim að mestu eða fullu í hendur erlendra fjárfesta, jafnvel hvatt til þess.

ARM er ekki eina félagið sem hefur farið þessa leið heldur virðist breski markaðurinn almennt eiga undir högg að sækja við að halda í, eða laða að, flottustu félögin. Brexit hefur eflaust ekki hjálpað, en hnignun breska markaðarins á sér lengri aðdraganda. Markaðsaðilar hafa verið að rekja hana til síðustu aldamóta, þegar breytingar voru gerðar á breska lífeyriskerfinu. Breytingar sem sköpuðu, að þeirra sögn, hvata fyrir breska lífeyrissjóði til að fjárfesta frekar í skuldabréfum en innlendum hlutabréfum.

Á þeim tíma hafi lífeyrissjóðirnir átt um 40% af skráðum hlutabréfum í Bretlandi. Í dag er það hlutfall komið niður í 4%. Breskt sparifé leiti því á önnur mið og styðji ekki nógu vel við fjárfestingar í bresku atvinnulífi. Aðrir hafa nefnt fleiri atriði sem betur hefðu mátt fara, til að mynda frjálsari ráðstöfun lífeyrissparnaðar, skattalega hvata og að einfalda þurfi almennum fjárfestum að eiga hlutabréfaviðskipti. Allt kunnugleg þemu, sem snúa að því hvernig farið er með innlent sparifé.

Heimamarkaður mikilvægur hluti í alþjóðlegri vegferð vaxtarfyrirtækja

Við eigum nokkur félög eins og ARM hér á Íslandi, vonarstjörnur sem eru hlutfallslega jafn mikilvægar fyrir okkur og ARM er fyrir breskt efnahagslíf. Ólíkt Bretum höfum við yfirleitt fagnað öllum hugmyndum um að koma þeim að mestu eða fullu í hendur erlendra fjárfesta, jafnvel hvatt til þess. Sem hefur verið full skammsýnt, að mínu mati, þó oft geti verið málefnalegar ástæður fyrir sölu fyrirtækja úr landi.

Gera þarf flottum vaxtarfyrirtækjum ekki bara kleift að verða til á Íslandi heldur halda áfram að vaxa og dafna sem íslensk fyrirtæki. Öflugur innlendur hlutabréfamarkaður er mikilvægur hlekkur á þeirri vegferð.

En þetta hefur blessunarlega verið að snúast við. Áhugi fyrirtækja á skráningum hefur verið mikill undanfarin ár og vaxtarfyrirtæki eins og Alvotech og Amaroq Minerals hafa notið góðs af aukinni veltu og betra aðgengi að fjármagni með því að bæta við skráningu á Íslandi, auk skráningar á erlenda markaði, sem er sama leið og bresk stjórnvöld lögðu til með ARM. Heimamarkaðurinn hefur sannað sig sem öflugur bakhjarl íslenskra vaxtarfyrirtækja og stökkpallur fyrir þau á alþjóðlega markaði. Hefur þar munað miklu um stuðning íslensku lífeyrissjóðanna og getu þeirra til að fjárfesta í hlutabréfum til langs tíma.

Við þurfum að halda í þetta og gera enn betur. Koma íslenska hlutabréfamarkaðnum í fremstu röð. Gera flottum vaxtarfyrirtækjum ekki bara kleift að verða til á Íslandi heldur halda áfram að vaxa og dafna sem íslensk fyrirtæki. Öflugur innlendur hlutabréfamarkaður er mikilvægur hlekkur á þeirri vegferð.

Við hjá Nasdaq höfum talað fyrir ýmsum umbótamálum undanfarin ár sem rýma nokkuð vel við þau atriði sem hagsmunaaðilar telja að hefðu mátt betur fara í Bretlandi. Eins og að efla beina og óbeina þátttöku almennings á hlutabréfamarkaðnum, með skattalegum hvötum og frjálsari ráðstöfun séreignasparnaðar. Nú er einmitt tíminn til að skoða þessi mál og vinna að umbótum. Því ekki viljum við að forsætisráðherrar framtíðarinnar sói dýrmætum tíma sínum í að berjast fyrir því að halda í flott fyrirtæki, þegar það er orðið of seint.

Höfundur er framkvæmdastjóri sölu og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland.




Umræðan

Sjá meira


×