„Við erum að reyna að vinna að lausn sem allir geta sætt sig við,“ segir Daníel Haraldsson, héraðsdýralæknir á Norðurlandi vestra. „Það eru ekki allir bændur á einu máli um að afhenda féð. Skoðanir eru skiptar,“ segir hann.
Um er að ræða 35 fjár í eigu níu bænda í Miðfirði. Í apríl voru um 1.400 kindur felldar í Miðfjarðarhólfi vegna riðusmits, þar af um 700 á bænum Syðri-Urriðaá. Það fé sem eftir er eru aðallega hrútar úr sömu hjörð og skorin var niður á Syðri-Urriðaá.
Matvælastofnun hefur hvatt bændurna til að afhenda féð en sumir þeirra bera fyrir sig annir í sauðburði. Hægt er að óska eftir fyrirskipun ráðherra og verði bændur ekki við því gæti bótaréttur þeirra glatast.
Tíminn að renna út
Daníel segir að enn hafi ekki verið óskað eftir fyrirskipun frá ráðherra. Heldur hafi ekki verið ákveðin nein afhendingardagsetning. En Matvælastofnun vill fá allar kindurnar afhentar á sama tíma því kostnaðarsamt sé að ræsa brennsluofninn.
Hins vegar er tíminn af skornum skammti. Matvælastofnun vill fá féð afhent áður en það verður rekið á fjöll. Sumir bændur byrja að reka strax í lok maí en flestir í byrjun júnímánaðar.
Samtalið er þó opið á milli Matvælastofnunar og bændanna. „Við höldum áfram samskiptum um hádegisbilið, þegar bændur eru vaknaðir,“ segir Daníel. „Í sauðburði eru þeir vakandi fram eftir öllu.“