Skoðun

Rýnt í leigu­verð

Andrés Magnússon skrifar

Umræða um leiguverð á íbúðarmarkaði hefur verið nokkuð hávær að undanförnu. Í þeirri umræðu hefur verið fullyrt að verðhækkanir á þessum markaði hafi verið úr öllu hófi og ekki í samræmi við almenna verðlagsþróun í landinu. Af þeirri ástæðu er rétt að staldra við og benda á nokkur einföld atriði:

  • a. Húsnæðiskostnaður hefur ávallt verið stærsti útgjaldaliður hverrar fjölskyldu, hvort sem fólk býr í eigin húsnæði eða er á leigumarkaði. Þannig hefur það ávallt verið og verður að öllum líkindum áfram.
  • b. Á tímabilinu frá desember 2019 til mars 2023 lækkaði leiguverð á höfuðborgarsvæðinu um 4,8% á föstu verðlagi á meðan kaupverð á íbúðarhúsnæði hækkaði um 22,4% á sama tíma. Ef horft er á þróunina út frá breytingu á launavístölu á sama tímabili á hækkaði launavísistalan um 31,2%, eða um tæplega 7% á föstu verðlagi. Leiguverð sem hlutfall af launum lækkaði því um 11 % á tímabilinu.
  • c. Fært yfir á mannamál merkir þetta að húsaleigan er hlutfallslega lág í samanburði við verð á fasteignum og fjármagnskostnað. Telja verður meiri líkur en minni á að húsaleigan aðlagist að einhverju leyti þegar horft er til þess að íbúafjölgun hér á landi hefur verið meiri undanfarna mánuði en nokkru sinni fyrr á svo skömmum tíma og framboð á leiguhúsnæði er augljóslega ekki í takt við þarfir markaðarins. Hér mun lögmálið um framboð og eftirspurn einfaldlega ráða þróuninni.
  • d. Könnun sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gert bendir eindregið til þess að stærri hluti leigjenda sé ánægðari með stöðu sína en oft áður, enda liggur það fyrir að útgjöld vegna húsaleigu hafa verið svipað hlutfall ráðstöfunartekna allan undangenginn áratug.
  • e. Samkvæmt lífskjarakönnun Hagstofu Íslands töldu 13,8% heimila á leigumarkaði sig búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað árið 2022 í samanburði við 25,4% árið 2015. Þessi niðurstaða bendir eindregið til þess að fólk hafi það almennt betra á leigumarkaði en oft áður.

Sú lýsing á ástandinu á leigumarkaði fyrir íbúðarhúsnæði sem birst hefur að undanförnu er því ekki í samræmi við þann raunveruleika sem opinber gögn segja til um. Hér gildir því hið sígilda að yfirveguð umræða, byggð á staðreyndum máls, er líklegust til að leiða umræðuna inn á réttar brautir.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×