Ljóst var fyrir leiki dagsins að Dortmund gæti með sigri á Augsburg komist upp fyrir ríkjandi Þýskalandsmeistara Bayern Munchen í þýsku úrvalsdeildinni. Bayern Munchen tapaði í gær 3-1 fyrir RB Leipzig.
Leikmenn Dortmund voru því í dag staðráðnir í því að grípa gæsina á meðan að hún gafst.
Á 58.mínútu leit fyrsta mark leiksins dagsins ljós. Það skoraði Sébastian Haller.
Haller var síðan aftur á ferðinni á 84. mínútu er hann tvöfaldaði forystu Dortmund og á þriðju mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma bætti Julian Brandt við þriðja marki Dortmund og innsiglaði sigur liðsins.
Toppsætið og örlögin eru því í höndum Dortmund fyrir lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar.
Dortmund situr í 1.sæti deildarinnar með 70 stig, tveimur stigum meira en Bayern Munchen sem situr í 2. sæti.
Dortmund tekur á móti Mainz 05 í lokaumferðinni á meðan að Bayern fer í heimsókn Köln. Leikirnir hefjast á sama tíma þann 27. maí næstkomandi.