Erlent

Lömuð sænsk kona föst á Bret­lands­eyjum vegna skrif­ræðis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maður konunnar ritaði 349 þingmönnum sænska þingsins erindi um málið en aðeins einn svaraði.
Maður konunnar ritaði 349 þingmönnum sænska þingsins erindi um málið en aðeins einn svaraði. epa/Anders Wiklund

Sænsk kona sem hefur verið búsett í Lundúnum í 25 ár lamaðist í hjólaslysi fyrir um ári síðan og hefur verið send á milli sjúkrahúsa á Bretlandseyjum í ár. Maðurinn hennar vill flytja hana heim til Svíþjóðar en þar neita yfirvöld að taka við henni þar sem hún er ekki skráður íbúi.

Konan, sem Guardian kallar Karin í umfjöllun sinni, er 52 ára og féll af hjólinu sínu í mars í fyrra, með þeim afleiðingum að höfuð hennar skall í gangstéttina. Síðan hefur hún gengist undir fjölda aðgerða.

Tom, eiginmaður Karin, vill nú flytja hana heim til Svíþjóðar svo þau hjónin og 12 ára sonur þeirra geti verið nær mömmu Karin og þremur systkinum. Heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð neita hins vegar að taka við Karin þar sem hún er ekki skráð með búsetu þar í landi.

Það sem flækir málin er að Tom getur ekki skráð Karin sem íbúa í Svíþjóð fyrr en hún hefur verið flutt þangað en heilbrigðisyfirvöld á Bretlandseyjum geta ekki flutt Karin til Svíþjóðar þar sem þarlend yfirvöld vilja ekki taka við henni fyrr en hún er þegar orðinn íbúi.

Þingmaður fjölskyldunnar á Bretlandseyjum segir málið sláandi. Karin sé föst milli tveggja ósamræmanlegra og ósveigjanlegra kerfa. Það geri ekki annað en að auka á þjáningar sem fjölskyldan hefur nú þegar mátt upplifa.

„Ég hef verið með Karin í langan tíma og ferðast oft til Svíþjóðar og stóð í þeirri meiningu að Svíþjóð væri samúðugt, frjálslynt, vestrænt lýðræði,“ segir Tom, sem hefur helgað líf sitt umönnun konu sinnar.

Hann ritaði 349 þingmönnum sænska þingsins erindi um málið en aðeins einn svaraði.

Umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×