Íslenski boltinn

Nikolaj jafnaði markamet Heimis Karls

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir Karlsson og Nikolaj Hansen deila nú markameti Víkings í efstu deild.
Heimir Karlsson og Nikolaj Hansen deila nú markameti Víkings í efstu deild. vísir/vilhelm/hulda margrét

Nikolaj Hansen jafnaði markamet Víkings í efstu deild þegar hann skoraði í sigri liðsins á HK í gær.

Víkingar gerðu góða ferð í Kórinn í gær og unnu 1-2 sigur á HK-ingum. Víkingur hefur unnið alla átta leiki sína í Bestu deildinni í sumar og aðeins fengið á sig tvö mörk.

Nikolaj skoraði annað mark Víkings á 72. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Pablos Punyed. Þetta var 37. mark Danans fyrir Víking í efstu deild.

Hann jafnaði þar með markamet Víkings í efstu deild sem Heimir Karlsson hefur átt í tæplega fjörutíu ár. Heimir skoraði 37 mörk í 116 leikjum fyrir Víking í efstu deild. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu 1981 og 1982.

Nikolaj gekk í raðir Víkings frá Val um mitt sumar 2017. Hann var markakóngur og valinn leikmaður ársins þegar Víkingur vann tvöfalt 2021. Fyrir þetta tímabil var Nikolaj gerður að fyrirliða Víkings.

Markahæstu leikmenn Víkings í efstu deild

  • Nikolaj Hansen - 37 mörk
  • Heimir Karlsson - 37 mörk
  • Lárus Guðmundsson - 25 mörk
  • Atli Einarsson - 25 mörk
  • Gunnar Örn Kristjánsson - 22 mörk
  • Óttar Magnús Karlsson - 21 mark
  • Guðmundur Steinsson - 21 mark



Fleiri fréttir

Sjá meira


×