Viðskipti innlent

112 milljóna hagnaður hjá Skógarböðunum

Máni Snær Þorláksson skrifar
Stofnendur Skógabaðanna, Finnur og Sigríður María.
Stofnendur Skógabaðanna, Finnur og Sigríður María. Vísir/Vilhelm

Baðlónið Skógarböðin, sem staðsett er í Vaðlaskógi í Eyjafirði, hagnaðist um yfir hundrað milljónir á síðasta ári, þrátt fyrir að lónið hafi ekki opnað fyrr en í maí í fyrra. Gestafjöldi hefur verið meiri en búist var við í upphafi en lónið hefur tekið á móti yfir hundrað þúsund gestum frá því það opnaði fyrir ári síðan.

Viðskiptablaðið greinir frá þessu en í umfjöllun þeirra kemur fram að sala Skógarbaðanna í fyrra hafi numið 466 milljónum króna. Þá nam hagnaðurinn alls 112 milljónum króna.

Fjallað var um Skógarböðin í kvöldfréttum Stöðvar 2 í nóvember síðastliðnum. Kom þá fram að aðsóknin hafi verið mun meiri en búist var við í upphafi. Stofnendur lónsins, hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer, sögðu að upphaflega var áætlað að það kæmu fimmtíu þúsund manns á fyrsta árinu.

„Við erum langt fyrir ofan það,“ sagði Sigríður í nóvember. Samkvæmt Viðskiptablaðinu hefur lónið tekið á móti um 106 þúsund gestum frá því það opnaði í fyrra.

Í samtali sínu við fréttastofu sögðu þau Finnur og Sigríður að það væri ekki gott að segja hvaðan vinsældir Skógarbaðanna komi. Þau nefndu að það gæti verið að þakka útsýninu, veðursældinni og jákvæðri umfjöllun um lónið.

„Ég held að þetta hafi bara selt sig pínulítið sjálft.“


Tengdar fréttir

Blússandi aðsókn í Skógarböðin

Aðsóknin að Skógarböðunum í Eyjafirði gegnt Akureyri hefur verið miklu meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir en nú hafa tæplega sextíu þúsund manns heimsótt böðin frá því að þau opnuðu í vor. Næsta skref er að byggja Spa hótel við böðin með hundrað og tuttugu herbergjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×