Þjóðþekktir Íslendingar koma fram í myndböndum í tengslum við átakið, þar á meðal forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, og fjölmiðlamaðurinn Guðmundur Benediktsson sem spyr: „Ertu vanur því að garga á fólk? Í vinnunni? Í búðinni? Í bíó? Eða á fjölskylduna? Af hverju heldur þú að það sé í lagi á fótboltaleik? Ekki tapa þér.“
Skammt er síðan að KSÍ greindi frá því að tveimur dómurum á Íslandi hefðu á síðustu vikum borist líflátshótanir. Önnur hótunin barst í gegnum talskilaboð en í hinu tilvikinu missti áhorfandi stjórn á skapi sínu og ruddist inn á völlinn, og að dómaranum.
Markmið átaksins sem KSÍ stendur nú fyrir er að hvetja fólk til jákvæðrar hegðunar í garð dómara, og/eða að bæta hegðun sína og láta af neikvæðri hegðun í garð dómara, bæði í meistaraflokki og yngri flokkum.
Einnig er ætlunin að fjölga dómurum en á vef KSÍ segir að mörg félög finni fyrir því að nýliðun í stéttinni sé mikil áskorun, og er neikvætt viðhorf í garð dómara talið hafa þar talsvert að segja.
Í myndböndunum frá KSÍ þakka hins vegar þjóðþekktir Íslendingar dómurum fyrir þeirra störf, og hvetja fólk til að hætta að tapa sér.