Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - Breiða­blik 0-0 | Marka­laust í bleytunni suður með sjó

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gísli Eyjólfsson var við það að sleppa í gegn þegar flautað var til leiksloka.
Gísli Eyjólfsson var við það að sleppa í gegn þegar flautað var til leiksloka. Vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Breiðabliks gerðu sér ferð suður með sjó til Keflavíkur í kvöld. Leiknum lauk með markalausu jafntefli. Keflavík hefur nú haldið marki sínu hreinu tvo leiki í röð og tekst að rísa af botninum, en þeir fara upp fyrir ÍBV á markatölu.

Krefjandi aðstæður

Þetta var fyrsti leikur Keflavíkurstrákanna á sínum aðalvelli, grasið kom seint og illa undan vetri. Veðuraðstæður voru einnig mjög slæmar, hörð sunnanátt og mikil rigning. Ekki bestu aðstæður sem hægt er að kjósa sér til fótboltaiðkunar.

Það sást strax frá fyrstu mínútu að Keflvíkingar væru að spila til jafnteflis. Varnarlínan lág mjög aftarlega á vellinum og leikmenn liðsins tóku sér drjúgan tíma í allar aðgerðir til að hægja sem mest á leiknum.

Blikum tókst illa að spila sig í gegnum þéttan varnarleik Keflvíkinga. Þeir héldu boltanum vel og liðið spilaði eins góðan fótbolta og aðstæður leyfðu en þegar komið var á síðasta þriðjung gekk þeim illa að skapa sér hættuleg færi.

Tækifæri á báða bóga

Bæði lið fengu þó tækifæri til að skora mark og vinna leikinn. Klæmint Olsen klúðraði dauðafæri þar sem hann stóð einn fyrir framan opið mark eftir fyrirgjöf frá Jasoni Daða, en boltinn skoppaði af grasinu rétt áður en hann skaut og fór hátt yfir markið.

Klippa: Klæmint með klúður aldarinnar

Nokkrum mínútum síðar var það svo Jóhann Þór Arnarsson sem klúðraði svipuðu færi fyrir Keflvíkinga, hann var þó með markmann fyrir framan sig annað en Klæmint, en hitti boltann illa og skaut yfir markið.

Af hverju endaði leikurinn með jafntefli? 

Veður- og vallaraðstæður gerðu liðunum erfitt fyrir að skapa sér mörg marktækifæri í dag. Það kemur engun áhorfanda þessa leiks á óvart að engin mörk hafi verið skoruð, en Blikar ganga líklega svekktari héðan út með þessi úrslit en Keflavíkurmenn.

Hverjir stóðu upp úr?

Varnarlína Keflavíkur á mikið hrós skilið fyrir sína frammistöðu í dag, og svosem liðið allt fyrir sína varnarvinnu. Þeir börðust eins brjálæðingar, héldu sínu uppleggi allan leikinn og uppskáru hreint mark í lokin.

Hvað gekk illa?

Blikar héldu eins vel í boltann og þeir gátu miðað við aðstæður en þegar komið var á síðasta þriðjung vallarins tókst þeim ekki að skapa sér nógu góð færi.

Hvað gerist næst?

Það er stutt í næsta leik, bæði lið spila næsta föstudag, 2. júní kl. 19:15. Þar fær Breiðablik topplið Víkings í heimsókn en Keflavík mætir Fram í Úlfarsárdalnum.

Við förum ekkert niðurlútir héðan

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, var svekktur að hafa ekki náð sigri í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

„Mér fannst við ekki alveg gera nóg til að brjóta þá á bak aftur, en að því sögðu fannst mér við hafa getað klárað leikinn. Þannig að já, maður er svekktur.“

Keflavíkurliðið lá mikið til baka og spilaði þéttan varnarleik í erfiðum aðstæðum.

„Þeir spiluðu bara góðan varnarleik, voru fastir fyrir og gerðu okkur erfitt fyrir, pirrandi að við náðum ekki að ógna meira.“

Höskuldur segist spenntur fyrir næsta leik Breiðabliks gegn toppliði Víkinga, sem töpuðu sínum fyrsta leik á mótinu gegn Val fyrr í kvöld.

„Við förum ekkert niðurlútir héðan, við erum búnir að halda hreinu fullt af leikjum í röð og safna mörgum stigum. Það er góður taktur í okkur og við erum bara peppaðir að mæta upp á Kópavogsvöll á föstudaginn.“

Frammistaða hans er ekki stærsta vandamál íslensks fótbolta í dag

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, fannst lið sitt ekki gera nóg til að verðskulda sigurinn í dag.Vísir/Hulda Margrét

„Við vorum með boltann nánast allan leikinn en sköpuðum okkur ekki nóg og það vantaði aðeins upp á grimmdina á síðasta þriðjungi. Þetta voru mjög krefjandi aðstæður þannig að úr því sem komið var er jafntefli bara allt í lagi.“

Ríkjandi markakóngur deildarinnar, Stefán Ingi Sigurðsson, var frá vegna meiðsla. Inn í hans stað kom Klæmint Olsen, sem klúðraði besta færi Breiðabliks í leiknum.

„Við söknuðum Stefáns, auðvitað, maður sem er í stuði og er heitur. En við treystum alveg Klæmint og hann fékk fín færi en var óheppinn að skora ekki. Við söknum alltaf góðra manna en það er bara þannig að það kemur maður í manns stað og við þurfum að þola það þegar einhver dettur út, það er hluti af þessu.“

Það var vafasöm ákvörðun hjá dómara leiksins að flauta leikinn af þegar Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks, virtist við það að sleppa einn gegn markmanni. Óskar segir þá ákvörðun ekki hafa ráðið úrslitum í kvöld.

„Neinei, Gunnar Oddur var að dæma held ég sinn fyrsta leik í efstu deild. Frammistaða hans er ekki stærsta vandamál íslensks fótbolta í dag. Ef leikurinn var búinn þá var hann búinn, við vitum ekkert hvort Gísli hefði náð honum eða ekki, það er ómögulegt að segja til um það,“ sagði Óskar Hrafn að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira