Fótbolti

Fjölnis­menn á toppinn með stór­sigri | Sel­fyssingar unnu Suður­lands­slaginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fjölnismenn tróna á toppi Lengjudeildarinnar.
Fjölnismenn tróna á toppi Lengjudeildarinnar. Vísir/Vilhelm

Fjölnismenn tróna á toppi Lengjudeildar karla í knattspyrnu eftir afar öruggan 6-0 sigur gegn Þór frá Akureyri í kvöld. Þá vann Selfoss nauman 3-1 útisigur gegn Ægi í Suðurlandsslag.

Máni Austmann Hilmarsson kom Fjölnismönnum yfir gegn Þórsurum eftir tuttugu mínútna leik áður en Axel Freyr Harðarson og Hákon Ingi Jónsson bættu sínu markinu hvor við fyrir hálfleikshléið.

Þeir þrír voru svo allir aftur á ferðinni í síðari hálfleik og sáu til þess að Fjölnismenn unnu öruggan 6-0 sigur.

Fjölnir trónir á toppi Lengjudeildarinnar með tíu stig eftir fjóra leiki, fjórum stigum meira en Þór sem situr í fimmta sæti.

Þá unnu Selfyssingar 3-1 útisigur er liðið heimsótti nágranna sína í Ægi til Þorlákshafnar í kvöld. Þorsteinn Aron Antonsson kom gestunum frá Selfossi yfir strax á þriðju mínútu leiksins áður en Hvoje Tokic, fyrrum leikmaður Selfoss, jafnaði metin fyrir heimamenn tíu mínútum síðar.

Það var svo ekki fyrr en á 82. mínútu að gestirnir náðu forystunni á ný þegar Guðmundur Tyrfingsson skoraði fyrir Selfoss áður en Gary Martin gerði út um leikinn sjö mínútum síðar.

Selfyssingar eru nú með sex stig í fjórða sæti deildarinnar, en Ægismenn sitja á botninum með eitt stig.

Að lokum vann Afturelding 3-2 útisigur gegn Gróttu, Njarðvík lagði Þrótt 3-1 og Skagamenn gerði góða ferð í Breiðholtið og unnu 3-2 sigur gegn Leikni.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara fengust á Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×