Erlent

Dauða­refsingar og tuttugu ára dómar við sam­kyn­hneigð í Úganda

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Mótmælendur mótmæla nýjustu löggjöf Úganda sem skerðir réttindi hinsegin fólks verulega í landinu.
Mótmælendur mótmæla nýjustu löggjöf Úganda sem skerðir réttindi hinsegin fólks verulega í landinu. Getty/Anna Moneymaker

Yoweri Museveni, forseti Úganda, hefur skrifað undir lög sem fela í sér eina mestu skerðingu á réttindum hinsegin fólks í heiminum. Með lögunum geta þeir sem „auglýsa“ samkynhneigð átt yfir höfði sér tuttugu ára fangelsi og þeir sem stunda samkynja kynlíf sýktir af HIV geta hlotið dauðarefsingu.

Samkynja sambönd voru ólögleg í Úganda fyrir þessi nýju lög, líkt og í meira en þrjátíu Afríkulöndum, en með þeim skerðast réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, trans fólks og hinsegin fólks enn frekar.

Þingkonan Anita Among greindi frá því á Twitter í morgun að Museveni væri búinn að samþykkja „the Anti-Homosexuality Act“ og staðfesti talsmaður Museveni fregnirnar síðan í opinberri tilkynningu.

Úganda sem fær milljarða Bandaríkjadala í fjárhagsaðstoð gæti þurft að þola refsiaðgerðir vegna löggjafarinnar. Þegar Museveni skrifaði undir sambærileg lög árið 2014 svöruðu Vesturlönd með því að hætta fjárhagsaðstoð sinni, setja landinu takmarkanir í vegabréfsáritunum og skerða öryggissamvinnu.

Bregðast líklega við með refsiaðgerðum

Bandaríska ríkisstjórnin greindi frá því í síðasta mánuði að verið væri að meta hvaða afleiðingar þessi nýju lög gætu haft fyrir starfsemi Bandaríkjanna í Úganda, sérstaklega með tilliti til HIV/AIDS-prógramsins í landinu.

Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar og fjöldi alþjóðlegra fyrirtækja hafa fordæmt nýju löggjöfina. Bandalag nokkurra fyrirtækja, sem innihalda meðal annars Google, hafa varað við því að löggjöfin muni setja fyrirtæki með starfsemi í Úganda í ómögulega stöðu og skaða efnahag landsins.

Hinsegin fólk í Úganda er uggandi yfir lögunum og segjast aðgerðarsinnar ætla að láta reyna á lögin frammi fyrir dómi. Aðgerðarsinninn Clare Byarugaba agði að með lögunum væri verið að lögleiða ríkisstudda trans- og hómófóbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×