Fótbolti

Glódís meðal bestu leikmanna Evrópu í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir átti frábært tímabil með Bayern München.
Glódís Perla Viggósdóttir átti frábært tímabil með Bayern München. getty/Johannes Simon

Glódís Perla Viggósdóttir er ein af tíu bestu leikmönnum tímabilsins í Evrópu að mati vefmiðilsins Goal.com.

Ameé Ruszkai, blaðamaður Goal.com, valdi 21 bestu leikmenn tímabilsins í Evrópu og Glódís er í 10. sæti listans. Enginn leikmaður Þýskalandsmeistara Bayern München er ofar.

Í umsögn um Glódísi segir að hún hafi verið sem klettur í vörn Bayern, bestu vörn þýsku úrvalsdeildarinnar. Jafnframt segir að hún sé gríðarlega mikilvæg þegar Bayern er með boltann og enginn leikmaður í þýsku úrvalsdeildinni hafi átt fleiri sendingar en hún.

Glódís lék hverja einustu mínútu í öllum 22 leikjum Bayern í þýsku úrvalsdeildinni og skoraði þrjú mörk. Eitt þeirra kom í 10-1 sigrinum á Turbine Potsdam um helgina. Með honum tryggðu Bæjarar sér þýska meistaratitilinn.

Að mati Goal.com var spænski miðjumaðurinn Aitana Bonmatí hjá Spánarmeisturum Barcelona. Alexandra Popp, fyrirliði Wolfsburg, var í 2. sæti og Börsungurinn Mapi Leon í því þriðja. Barcelona og Wolfsburg mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á morgun.

Sjá má lista Goal.com yfir bestu leikmenn tímabilsins með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×