Atvikið átti sér stað síðasta sumar á heimfarardegi stúlkunnar þegar hún segir starfsmann með þroskaskerðingu hafa brotið á sér kynferðislega. Foreldrar stúlkunnar stigu fram í viðtali við Heimildina þar sem þeir gagnrýndu viðbrögð starfsfólks og stjórnenda Reykjadals.
Sumarbúðirnar eru fyrir börn með fötlun og hefur lögregla haft málið til rannsóknar. Atvikið var tilkynnt til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sem safnaði gögnum og ræddi við foreldra stúlkunnar, lögreglu og stjórnendur Reykjadals í því skyni að leita skýringa á því hvers vegna atvikið gat átt sér stað og koma með tillögur að úrbótum til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.
Ein án eftirlits
Forstjóri stofnunarinnar segir að á heimferðardegi stúlkunnar hafi verið álag í þjónustunni sem varð til þess að eftirlit með barninu var ekki tryggt.
„Og það skapast aðstæður þar sem utanaðkomandi starfsmaður, sem er í verndaðri vinnu, kemst inn í herbergi hjá barninu og lokar að þeim. Þau eru ein í stutta stund án eftirlits,“ segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.
Ekki tafarlaust hringt á lögreglu
Stofnunin telur að alvarlegur misbrestur hafi verið á viðbrögðum starfsmanna og stjórnenda Reykjadals þegar upp komst um atvikið og að viðbrögð hafi verið ámælisverð og ómarkviss. Þetta kemur fram í niðurstöðum skýrslunnar þar sem jafnframt segir að verkferla skorti sem leiddi til þess að starfsfólk þekkti ekki til hvers ætti að grípa við þessar aðstæður.
Vegna þessa hafi meintur gerandi verið færður af vettvangi í stað þess að hafa tafarlaust samband við lögreglu. Enn fremur hafi lök, með mögulegum lífsýnum, verið tekin af rúmum og sett í hrúgu áður en lögregla kom á staðinn.
![](https://www.visir.is/i/642093268538D13663CDFE0182CE7320A8CD611862B38D48DBF79BED59E3416C_713x0.jpg)
Úrbóta þörf
Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur að úrbótum sem Herdís segir að unnar hafi verið í samráði við stjórnendur Reykjadals.
„Af því að okkur þótti í raun vera það miklar brotalamir í starfseminni hvað þennan þátt varðar að við vildum fylgja því eftir sérstaklega.“
Lögð er áhersla á að börn séu aldrei án eftirlits og að mönnun sé í samræmi við álag.
„Og við höfum lagt líka mjög ríka áherslu á að fylgja því eftir að þau þjálfi starfsfólk í þessum verkferlum þannig fólk kunni réttu viðbrögðin ef eitthvað þessu líkt kemur upp aftur.“