Innlent

Saka sveitar­stjórn um að taka af­stöðu með tveimur heimilum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Foreldrarnir hafa boðist til að kaupa húsið og reka þar einkarekinn grunn og leikskóla.
Foreldrarnir hafa boðist til að kaupa húsið og reka þar einkarekinn grunn og leikskóla. Laugagerðisskóli

Foreldrar nokkurra barna í Eyja og Miklaholtshreppi hafa gefið út yfirlýsingu varðandi lokun Laugagerðisskóla. Foreldrarnir hafa boðist til að reka skólann og gera við húsnæðið.

Íbúar í fimm bæjum í Eyja og Miklaholtshreppi eru afar ósátt við lokun Laugagerðisskóla í Hnappadal sem tilkynnt var þann 21. febrúar síðastliðinn. Að sögn sveitarstjórnar var kostnaðurinn of mikill á hvern nemanda, það er um tíu milljónir króna miðað við 2,5 í Stykkishólmi. Aðeins fimmtán börn eru í skólanum en átta starfsmenn.

Einnig voru rakaskemmdir á húsnæðinu sem lá á að laga. Stefnir sveitarstjórn á að semja við Stykkishólm um skólaþjónustu.

Skrifuðu foreldrarnir yfirlýsingu sem birt var í Vesturlandsmiðlinum Skessuhorni í gær. Þar fara þau yfir málið frá sinni hlið.

Vildu stofna einkarekinn skóla

Foreldrarnir segjast hafa reynt að vera í sambandi við sveitarstjórnarfólk til að finna lausnir til að halda skólanum opnum en það hafi gengið illa. Hafi þeir boðist til að kaupa bygginguna og sjá um viðhald á henni. Þar hafi þeir ætlað að stofna einkarekinn grunn og leikskóla sem valkost fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn hafi hins vegar hafnað þessu þann 14. apríl en í staðinn boðið foreldrunum að leigja húsnæðið undir skóla í eitt ár sem foreldrunum þótti of naumur tími til að stofna fyrirtæki fyrir.

Viku seinna hafi sveitarstjórn verið opin fyrir þriggja til fimm ára leigusamningi með forkaupsrétti á eignum. Gerð voru drög að slíku samkomulagi en þeim loks hafnað á fundi sveitarstjórnar þann 13. maí.

„Því miður virtist aldrei vera einlægur vilji hjá hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps að fara þessa leið til uppbyggingar. Í stað þess að vinna með okkur að þessu verkefni, samfélaginu til framdráttar hefur sveitarstjórn með markvissum hætti reynt að tala samfélagið niður. Annað hvort af vanþekkingu á sveitarstjórnarmálum eða óheiðarleika,“ segir í yfirlýsingunni.

Bygging þurfi lítið viðhald

Nefnd eru svo atriði er varðar ósamræmi upplýsinga um kostnað við það sem sagt var í fjölmiðlum þegar ákvörðunin var kynnt. Einnig að samkvæmt verktakaskýrslum þurfi byggingin tiltölulega lítið viðhald.

„Áberandi er að þegar samtalið hefur átt sér stað við sveitarstjórn hefur henni gengið erfiðlega að rökstyðja þessa ákvörðun og á endanum varð það vandræðalega augljóst hver ástæðan fyrir lokun skólans er. Ljóst er að hreppsnefnd er að taka afstöðu með tveimur heimilum í sveitarfélaginu,“ segir í yfirlýsingunni og er þá átt við þau heimili sem nýta skólaþjónustu á Stykkishólmi. „Nú er ljóst að með afgreiðslu sveitarstjórnar á hreppsnefndarfundi 5. júní er tekið mið af hagsmunum tveggja heimila fram yfir hagsmuni annarra barna í samfélaginu.“

„Síðan ákvörðun sveitarstjórnar í Eyja- og Miklaholtshreppi um að loka skólanum var tilkynnt 21. febrúar sl. hafa foreldrar verið að vinna að lausnum til að halda skólastarfi áfram í Laugargerðisskóla. Vakið hefur undrun foreldra hversu erfitt hefur verið að ná samtali við sveitarstjórn í vetur. Við höfum boðist til að kaupa eignirnar og sjá um viðhald á þeim sem og stofna einkarekinn grunn- og leikskóla. Þessari tillögu var hafnað af hálfu sveitarstjórnar á fundi þann 14. apríl en okkur boðið að leigja húsnæðið undir skóla í eitt ár. Okkur þótti sá tími of knappur til að stofna og standsetja fyrirtæki og halda úti starfsemi sem búið var að kynna fyrir sveitarstjórn. Það væri algerlega óásættanlegt fyrir börn og starfsfólk að halda óvissuferðinni áfram.

Frá upphafi hefur legið ljóst fyrir (komið fram í drögum að þjónustusamningi) að ferðaþjónusta, farfuglaheimili og tjaldsvæði yrðu ekki rekin í hagnaðarskyni heldur eingöngu til að standa undir kostnaði við rekstri á skóla. Hugsanlegur hagnaður af þeirri starfsemi myndi þá renna beint í eflingu á skólastarfinu líkt og Menntamálastofnun fer fram á. Það er ekki hægt að bera þann hluta rekstursins við aðra hagnaðardrifna ferðaþjónustustarfsemi á svæðinu og gefa í skyn að það yrði samkeppni við önnur fyrirtæki á svæðinu. Í Eyja- og Miklaholtshrepp eru engin önnur tjaldsvæði né farfuglaheimili í þeirri mynd sem stóð til að fara af stað með.

Í framhaldi áttum við samtal við hreppsnefnd á vinnufundi 20. apríl. Samtalið gaf fyrirheit um þriggja til fimm ára leigusamning með forkaupsrétti af eignunum. Það vakti von um að nú yrði fundin lausn og sátt um skólamál í samfélaginu. Þá tók við að setja upp drög að leigusamningi sem og þjónustusamningi við Eyja- og Miklaholtshrepp. Við vinnslu þess var tekið mið af umræðum af fundinum og tekið var tillit til þeirra ábendinga. Drögin voru síðan lögð fyrir oddvita og varaoddvita. Sveitarstjórn tók drögin fyrir á fundi 13. maí en hafnaði þeim. Þá var bókað í fundargerð vilji af þeirra hálfu til að halda samtalinu áfram. Eftir frekari ábendingar frá sveitarstjórn hafa drögin verið lagfærð og fullt tillit tekið til ábendinga þeirra.

Við gerðum enga athugasemd við að gerður yrði samningur við Stykkishólm um leik- og grunnskólamál. Við töldum það jákvætt að leggja fram valmöguleika fyrir foreldra og börn í þeim efnum og að skapa þannig sátt í samfélaginu hvort sem foreldrar kysu að senda börnin sín í Stykkishólm eða sækja skóla í nærumhverfi.

Í drögum að þjónustusamningi og leigusamningi höfum við tekið mið af sjónarmiðum hreppsnefndar. Við höfum gert margar tilraunir til að finna ásættanlega niðurstöðu fyrir samfélagið. Við höfum boðist til að taka á okkur kostnað við rekstur og sinna viðhaldi á húsnæði í Laugargerði. Það hefði þýtt minni kostnað fyrir sveitarfélagið til fræðslumála heldur en eingöngu samningur við Stykkishólm. Einnig kom skýrt fram í samtölum okkar við fulltrúa sveitarstjórnar að allar áætlanir vegna faglega starfsins væru klárar og við einnig búin að vera í sambandi við Menntamálastofnun vegna málsins. Á vinnufundi 20. apríl voru allir aðilar sammála um að þegar yrði sótt um leyfi um einkarekinn leik- og grunnskóla færi Menntamálastofnun yfir faglega þáttinn. Einnig vorum við tilbúin með fjárhagsáætlanir fyrir verkefnið. Það stóð til að leggja þær fram um leið og niðurstöður lægju fyrir og skrifað væri undir samninga.

Þessar upplýsingar komu fram í þeim örfáu samtölum sem við fengum við fulltrúa sveitarstjórnar. Áætlunin var að stofna rekstur í kringum eignirnar í Laugargerði sem hefði þá staðið undir rekstri á skólahaldi á staðnum. Ef til þess kæmi hefði það styrkt samfélagið í okkar litla dreifbýli til muna og einnig getað orðið fordæmisgefandi fyrir önnur svæði á landinu sem eru í svipaðri stöðu.

Því miður virtist aldrei vera einlægur vilji hjá hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps að fara þessa leið til uppbyggingar. Í stað þess að vinna með okkur að þessu verkefni, samfélaginu til framdráttar hefur sveitarstjórn með markvissum hætti reynt að tala samfélagið niður. Annað hvort af vanþekkingu á sveitarstjórnarmálum eða óheiðarleika.

Hér má nefna ósamræmi í málflutningi sveitarstjórnar.

Í upphafi hringir oddviti í forsvarsmenn nágrannasveitarfélaga og fékk uppgefið óformlega hver yrði kostnaðurinn við að koma með nemendur úr sveitarfélaginu til þeirra. Það fengust svör eftir bestu vitund á þeim tíma. Þetta lagði oddviti fyrir hreppsnefnd sem formleg tilboð frá sveitarfélögunum á fundi 20. febrúar. Út frá þessum óformlegu tilboðum var í kjölfarið ákveðið að semja við Stykkishólm. Þessi óformlega könnun var meðhöndluð sem lokatilboð af oddvita og grundvöllur að ákvarðanatöku um skólamálin. Við höfum óskað eftir að fá afhentar upplýsingar um svokölluð tilboð en ekki tekist að fá þær enn sem komið er.

Um miðjan desember var fjárhagsáætlun samþykkt til fjögurra ára. Áætlunin kom vel út og í henni var gert ráð fyrir rekstri grunnskóla öll árin. Því má áætla að annað hvort vissi hreppsnefnd ekki hvað kæmi fram í áætluninni eða ekki gert ráð fyrir því að almenningur myndi lesa hana. Af því má draga ályktun að gerð var tilraun til að segja ósatt um horfur á rekstri sveitarfélagsins.

Lögð hefur verið áhersla á viðhaldsþörf húsnæðis í Laugargerði af hálfu hreppsnefndar. Við fengum loksins skýrslur sem vísað var í og samkvæmt þeim þurfa lagfæringar vegna skólahalds lítið fjármagn. Því má velta fyrir sér hvort hreppsnefndarmenn hafi ekki þekkingu á viðhaldsmálum eða eru þau beinlínis að segja ósatt um málið til að rökstyðja lokun á skólanum.

Staða á rekstri sveitarfélagsins. Mikið hefur verið gert úr því að rekstur Eyja- og Miklaholtshrepps væri erfiður og það þyrfti að grípa til aðgerða því rekstur skólans væri kostnaðarsamur. Þegar ársreikningurinn fyrir 2022 kom á heimasíðu sveitarfélagsins kom í ljós að hagnaður af rekstri EM árið 2022 var um 15 milljónir. Þá er athyglisvert að 52.2 % af skatttekjum fara í fræðslumál og sem dæmi fara 53.4 % hjá Borgarbyggð í fræðslumál og 51.9 % hjá Stykkishólmsbæ. Sveitarstjórnarmenn hafa því haldið röngu fram um stöðu sveitarfélagsins í vetur sem og með fræðslumálin, bæði við íbúa og fjölmiðla. Annað hvort vita hreppsnefndamenn ekkert um stöðuna eða eru vísvitandi að segja ósatt.

Það vekur einnig athygli að í ársreikningum EM kemur fram að liðurinn sameiginlegur kostnaður hefur hækkað milli ára. Hann fer úr 19 milljónum 2021 í 31 milljón 2022. Undir þessum lið eru t.d. laun sveitarstjórnar, oddvita, skrifstofa sveitarfélagins, endurskoðun og fleira. Beðið hefur verið um að fá senda endurskoðunarskýrslu KPMG sem og stjórnsýsluúttekt KPMG en svarið frá oddvita er að þau skjöl verða ekki afhent. Það er því erfitt að finna útskýringar á hækkun á liðnum sameiginlegur kostnaður. Það vakti athygli okkar að frá júní til loka desember 2022 var nokkrum sinnum rætt laun sveitarstjórnar og oddvita á hreppsnefndarfundum en aldrei minnst orði á bága stöðu sveitarfélagsins. Einnig var aldrei haft fyrir því að ræða við foreldra sem þó var ákveðið á fundi síðastliðið sumar að gera. Það vekur upp spurningar um forgangsröðun sveitarstjórnar er kemur að málefnum samfélagsins.

Áberandi er að þegar samtalið hefur átt sér stað við sveitarstjórn hefur henni gengið erfiðlega að rökstyðja þessa ákvörðun og á endanum varð það vandræðalega augljóst hver ástæðan fyrir lokun skólans er. Ljóst er að hreppsnefnd er að taka afstöðu með tveimur heimilum í sveitarfélaginu. Það eru Stakkhamar og Fáskrúðarbakki. Það sem er undarlegt er að þeir sveitarstjórnarmenn sem eru annars vegar íbúar eða hafa beina tengingu við þessi heimili stigu ekki til hliðar þegar ákvörðunin var tekin. Þrátt fyrir augljósa eiginhagsmuni af því að samið yrði við Stykkishólm því frá þessum tveimur heimilum hafa í nokkur ár verið keyrð börn í leik- og grunnskóla í Stykkishólmi. Ákvörðun eins og þessi um að loka skólanum í Eyja- og Miklaholtshreppi mun hafa afgerandi áhrif á samfélagið og börnin okkar inn í framtíðina. Nú er ljóst að með afgreiðslu sveitarstjórnar á hreppsnefndarfundi 5. júní er tekið mið af hagsmunum tveggja heimila fram yfir hagsmuni annarra barna í samfélaginu. Alveg frá því að oddviti sendi tölvupóst 21.febrúar um lokun á Laugargerðisskóla hafa foreldrar og forráðamenn leitast við að finna hagkvæma og góða lausn fyrir allt samfélagið okkar með uppbyggingu, sátt og samlyndi í huga."

Virðingarfyllst,

Katharina og Eggert, Hofsstöðum

Sonja og Þórður, Stórakrók

Sveinbjörg og Jón, Stóru Þúfu

Ulrike og Hennig, Miklaholtsseli

Guðný og Atli, Dalsmynni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×