Innlent

Á annan tug verkfallsbrota hafi átt sér stað

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Verkfallsverðir BSRB.
Verkfallsverðir BSRB. BSRB

BSRB segir að á annan tug verkfallsbrota hafi átt sér stað í að minnsta kosti þrettán sveitarfélögum síðustu tvo sólarhringa. Verkfallsbrot á leikskólum hafi verið sérstaklega áberandi síðustu daga, þar sem stjórnendur leikskóla virðist hafa fengið fyrirmæli um breytingar á skipulagi sem feli í sér verkfallsbrot. Eins hafi borist ábendingar um brot á bæjarskrifstofum og í sundlaugum.

Í tilkynningu á vef BSRB segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður stéttarfélagsins, að heimildir séu fyrir því að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi boðað stjórnendur leikskóla á fund á þriðjudag.

„Fulltrúar í samninganefnd Sambandsins hafi m.a. stýrt fundum þar sem markmiðið virðist hafa verið að leggja línur fyrir leikskólastjórnendur og þeir hvattir til þess að fremja það sem hingað til hefur, að okkar mati, verið talið verkfallsbrot,“ er haft eftir Sonju.

Fram kemur að verkfallsverðir BSRB hafi undanfarna tvo sólahringa orðir varir við miklar breytingar á skipulagi leikskóla frá því sem áður var. Víða hafi verið opnaðar deildir þar sem deildarstjóri er í verkfalli, sem hafi hingað til verið lokaðar.

„Þá eru börn færð á milli deilda, starfsfólki sem ekki er í verkfalli boðið að taka börnin sín með í vinnu svo það þurfi ekki að vera heima og foreldrar beðnir um að senda börn í leikskólann með nesti þrátt fyrir að matráður sé í verkfalli, en fram til þess höfðu börn verið send heim í hádegismat.“ 

Þannig hafi ítrekað verið gengið í störf starfsfólks í verkfalli í að minnsta kosti þrettán sveitarfélögum.

„Þá er sérstaklega alvarlegt að Samband íslenskra sveitarfélaga, sem starfar í umboði sveitarfélaga landsins, telji það réttlætanlegt að beita sér gegn starfsfólki sveitarfélaganna með þessum hætti.“

Samkvæmt BSRB hafa ábendingar um verkfallsbrot borist í eftirfarandi sveitarfélögum:

  • Kópavogur
  • Garðabær
  • Árborg
  • Ölfus
  • Seltjarnarnes
  • Hveragerði
  • Reykjanesbær
  • Grundarfjörður
  • Snæfellsbær
  • Dalvík
  • Stykkishólmur
  • Borgarnes
  • Vestmannaeyjar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×