Viðskipti innlent

Hamp­iðjan komin á aðal­markað Nas­daq á Ís­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, hjá Kauphallarbjöllunni.
Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, hjá Kauphallarbjöllunni. Nasdaq Iceland

Hlutabréf í Hampiðjunni voru í dag tekin til við skipta á aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi. Félagið hefur verið skráð félag á Íslandi síðan 1993, þar af síðastliðin sautján ár á Nasdaq First North vaxtarmarkaðnum.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni segir að Hampiðjan tilheyri Neysluvörugeiranum (e. Consumer Discretionary) og sé ellefta félagið sem tekið sé til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic í ár.

„Hampiðjan var stofnuð árið 1934 og er leiðandi á heimsvísu í þjónustu og þróun á vörum fyrir sjávarútveg, fiskeldi og úthafsiðnað. Hampiðjan samanstendur af 51 fyrirtæki, með starfsstöðvar á 76 stöðum á 21 andssvæði, og teygir sig frá ysta odda í Alaska í vestri og til Nýja Sjálands í austri. Hjá fyrirtækinu starfa um 2.000 manns. Vöruþróun og nýsköpun eru mikilvægir þættir starfsemi Hampiðjunnar og sá kjarni sem fyrirtækið byggir á en félagið er með 41 einkaleyfi fyrir ýmsar vörutegundir,“ segir í tilkynningunni.

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, og Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. Nasdaq Iceland

Haft er eftir Hirti Erlendssyni, forstjóra Hampiðjunnar, að flutningurinn frá Nasdaq First North vaxtarmarkaðnum yfir á aðalmarkaðinn sé mikilvægt skref fyrir Hampiðjuna. „Vel heppnað útboð á nýju hlutafé í síðustu viku samhliða skráningu á Aðalmarkað Nasdaq gerir okkur kleift að nýta að fullu þau samlegðartækifæri sem felast í nýlegum kaupum okkar á norska fyrirtækinu Mørenot og ná fram hagræðingu í rekstri þess. Mikil þekking á veiðarfæragerð og fiskeldi ásamt öflugri vöruþróun hefur komið okkur í fremstu röð fyrirtækja sem sinna þessum mikilvægu greinum og við viljum halda áfram á sömu braut og efla Hampiðjuna enn frekar. Við erum sannarlega ánægð að sjá að fjárfestar deila með okkur þessari framtíðarsýn og bjóðum nýja hluthafa hjartanlega velkomna í fyrirtækið,“ segir Hjörtur.

Þá er haft eftir Magnúsi Harðarsyni, forstjóra Nasdaq Iceland, að um leið og Kauphöllin bjóði Hampiðjuna hjartanlega velkomna á Aðalmarkað Nasdaq Iceland sé þrjátíu ára skráningarafmæli félagsins á hlutabréfamarkaði fagnað. „Við óskum Hampiðjunni einnig til hamingju með vel heppnað hlutafjárútboð og við hlökkum til að styðja við félagið fram veginn með auknum sýnileika og aðgengi að breiðari hópi fjárfesta.“

Nasdaq Iceland

Tengdar fréttir

Hvalur keypti fimm prósent af heildarstærð útboðs Hampiðjunnar

Fjárfestingafélagið Hvalur, langsamlega stærsti hluthafi Hampiðjunnar, keypti nærri því fimm prósent af heildarstærð hlutafjárútboðs félagsins sem lauk síðastliðinn föstudag í tengslum við skráningu á Aðalmarkað í Kauphöllinni. Þannig fékk Hvalur úthlutað rúmlega 4,2 milljónum hluta að nafnvirði í útboðinu og nemur kaupverð bréfanna samtals nærri 550 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×