Í fréttum Stöðvar 2 var farið að Skógafossi, sem er með vinsælustu ferðamannastöðum landsins, en þar mátti í gær sjá aragrúa erlendra ferðamanna.
Undir Eyjafjöllum reka Jóhann Þórir Jóhannsson og fjölskylda Hótel Önnu á Moldnúpi en einnig hótel og veitingastað við Skógafoss. Jóhann segir að yfir háannatímann komi þúsundir manna að fossinum á degi hverjum.

„Þetta er gríðarlega mikill fólksfjöldi þarna. Við höfum nú verið að telja bíla þarna og rútur. Það eru tugir rúta á sama tíma. Þrjátíu rútur náðum við að telja á sama tíma í mars, sem var mjög góður tími fyrir okkur til dæmis.
Þannig að það er mjög mikil traffík núna í gangi,“ segir Jóhann Þórir.
Á Kirkjubæjarklaustri segir Benedikt Traustason, sérfræðingur Vatnajökulsþjóðgarðs, íslenska ferðamenn einnig mætta.
„Íslendingar fylla tjaldsvæðin og síðan fullt af erlendum gestum sem sækja Skaftárhrepp heim.“

-Er þetta eitthvað meira en venjulega?
„Þetta er alveg svona í meira lagi.
Og allavega tölurnar sem við fáum úr Skaftafelli fyrir mars og apríl eru svona bara á pari við sumarmánuðina,“ segir Benedikt.
„Þetta er bara mjög gott og þetta gæti hugsanlega orðið það stærsta sem við höfum séð,“ segir Jóhann Þórir.

Raunar segir hagfræðideild Landsbankans nýjustu tölur benda til þess að þó nokkuð fleiri ferðamenn gætu komið til landsins í ár en áður var spáð. Þannig var fjöldi erlendra ferðamanna í maímánuði aðeins fimm prósentum undir fyrra meti frá árinu 2018, eða 158 þúsund núna miðað við 165 þúsund í maímánuði fyrir fimm árum.
Jafnframt vekur hagfræðideildin athygli á því að bílaleigubílum í umferð haldi áfram að fjölga og að ferðamenn dvelji lengur en fyrir faraldur.
„Júlí verður rosalega stór. Og ágúst. Miðað við hvernig september og október eru bókaðir þá reikna ég bara með að það verði ekki síðra heldur en var þegar best var,“ segir Jóhann ferðaþjónustubóndi á Moldnúpi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: