Körfubolti

„Ekki veðja gegn feita stráknum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
NBA-meistarinn Nikola Jokić og hinn ungi Nikola Jokić.
NBA-meistarinn Nikola Jokić og hinn ungi Nikola Jokić. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Nikola Jokić er án efa einn allra besti körfuboltamaður heims um þessar mundir. Hann er nýbúinn að tryggja Denver Nuggets sinn fyrsta sigur í NBA-deildinni frá upphafi og er á leiðinni heim í verðskuldað frí. Það stefndi þó ekki í það þegar hann kom fyrst inn í deildina árið 2015.

Jokić er 28 ára gamall í dag og hefur spilað í NBA-deildinni síðan 2015. Þegar Denver valdi hann í nýliðavalinu það árið voru ekki margir spekingar á því að þarna væri leikmaður sem yrði innan skamms einn besti miðherji deildarinnar.

Nuggets valdi Jokić með 41. valrétt í nýliðavalinu 2015 en fram að því hafði hann aðeins spilað í Serbíu. Valið á Jokić var ekki einu sinni í beinni útsendingu þar sem það var auglýsing frá Taco Bell í loftinu þegar tilkynnt var að Denver hefði valið miðherja frá Serbíu.

NBA-meistarinn var spurður út í nýliðavalið á dögunum. Svar hans var afdráttarlaust:

„Þau höfðu ekki trú á feita stráknum. Þetta virðist hafa gengið upp. Ekki veðja gegn feita stráknum.“

Jokić hefur vakið mikla athygli fyrir spilamennsku sína í úrslitakeppninni enda verið nær óstöðvandi. Hann var á endanum valinn MVP [verðmætasti leikmaður] úrslitaeinvígisins. 

Miðherjinn hefur sagt að hann spili körfubolta á sem einfaldastan hátt og virðist lífstíll hans svipaður. Eftir að Nuggets tryggði sér NBA-meistaratitilinn með sigri á Miami Heat sagðist hann einfaldlega vilja fara heim til Serbíu í frí.

Hversu lengi það frí endist er svo stóra spurningin en miðherjinn hefur verið valinn í leikmannahóp Serbíu fyrir HM í körfubolta sem fram fer í ágúst næstkomandi. Mótið fer fram í Filippseyjum, Japan og Indónesíu. Serbía er í riðli með Suður-Súdan, Kína og Púertó Ríkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×