Fótbolti

Þriggja ára bann fyrir að gera grín að Hillborough-slysinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmaður Tottenham sendi stuðningsmönnum Liverpool handabendingar með það að markmiði að gera grín að Hillsborough-slysinu.
Stuðningsmaður Tottenham sendi stuðningsmönnum Liverpool handabendingar með það að markmiði að gera grín að Hillsborough-slysinu. Mike Morese/MI News/NurPhoto via Getty Images

Kieron Darlow, 25 ára gamall stuðningsmaður Tottenham Hotspur, hefur verið úrskurðaður í þriggja ára bann frá því að mæta á fótboltaleiki eftir að hann var fundinn sekur um að gera grín að Hillsborough-slysinu, mannskæðasta breska íþróttatengda slysi sögunnar.

Alls létust 97 stuðningsmenn Liverpool í Hillsborough-slysinu árið 1989. Slysið átti sér stað á Hillsborough-vellinum í Sheffield er Liverpool og Nottingham Forest áttust við í undanúrslitum FA-bikarsins.

Darlow hefur nú verið úrskurðaður í þriggja ára bann frá því að mæta á fótboltaleiki fyrir að gera grín að slysinu. Hann var í stúkunni á Anfield þann 30. apríl síðastliðinn er Liverpool vann dramatískan 4-3 sigur gegn Tottenham og það var þar sem atvikið átti sér stað.

Darlow sendi stuðningsmönnum Liverpool þá merki með höndunum til að gefa til kynna að stuðningsmenn liðsins á Hillborough-vellinum árið 1989 sem ekki voru með miða á leikinn hafi troðist fram fyrir röð og þannig átt hluta af sök er slysið varð.

Fyrir dómi játaði Darlow brot sín og segir að það hafi verið ætlun sín að áreita stuðningsmenn Liverpool og valda þeim vanlíðan. Hann segist einnig iðrast gjörða sinna og að slík hegðun sé algjörlega óásættanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×